139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[17:08]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra að aðilar í fjárlaganefnd eru að miklu leyti sammála um það sem gera þarf, 95% sammála sagði hv. þingmaður. Ég skil það þá þannig að sjálfstæðismenn séu 95% sammála um þær aðgerðir sem grípa verður til í aðhaldi eða skattahækkunum. (REÁ: Nei, nei.) Ja, ég heyrði ekki betur en þá verður hv. þingmaður að leiðrétta það því að það mátti skilja af orðum hans. (Gripið fram í.) Mér þótti hins vegar athyglisvert að heyra að við séum að fálma okkur í einhverju umhverfi sem við erum óviss vegna þess að mér fannst það einmitt ágætislýsing á þeim efnahagstillögum sem sjálfstæðismenn komu fram með. Þar voru menn með það alveg kristaltært hvar þeir ætluðu að auka útgjöldin en hins vegar var tekjuaukningin byggð á því að ákveðnar aðgerðir ættu að leiða til aukins hagvaxtar. Þar horfðu menn t.d. á Helguvík og við vitum alveg hvað stoppar Helguvík, það eru ekki aðgerðir stjórnmálamanna, það eru fyrst og fremst deilur um orkuverð, og þar ætluðu menn að fara í orkutengda uppbyggingu á Bakka. Við vitum öll hver staðan er á þeim verkum, þau eru ekki að detta inn, því miður, á næstu missirum, samanber t.d. álit Skipulagsstofnunar frá því í dag. Það er langt í land og þess vegna er fálmkennt að byggja aukin útgjöld á óvissutekjum eins og sjálfstæðismenn eru að leggja til. Það væri óábyrg fjármálastjórn og þess vegna er hún á veikum grunni byggð.

80 milljarða einskiptisaðgerð og fresta þar með nauðsynlegum aðhaldsaðgerðum þar sem við tengjum saman útgjöld og tekjur er líka óábyrg fjármálastjórn. Við verðum að ná aðhaldi og einskiptisaðgerð t.d. með því að skattleggja séreignarsparnaðinn — við skattleggjum ekki þessar tekjur aftur, við erum að taka af framtíðartekjum ríkissjóðs — væri óábyrg fjármálastjórn. Við ættum frekar, ef við ætluðum að fara í slíkar aðgerðir, að gæta vel að því og ekki fresta því að ná jafnvægi í útgjöldum og tekjum ríkissjóðs.