139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[17:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er að verða fjörugt í restina og það er líka mjög fínt. En hv. þingmaður sagði áðan, og ég þakka honum fyrir andsvarið, að hann hefði misst af upphafi ræðu minnar. Þar fór ég mjög skilmerkilega yfir þetta. Ég fór mjög vel yfir það og dró ekkert úr þeim árangri sem hefði náðst. En ég benti hins vegar á að það væri með þeim hætti að þetta væru einskiptisaðgerðir, þannig að við værum bara meðvituð um verkefnin. Ég var ekkert að gera lítið úr því sem vel hefur tekist til.

Síðan spyr hv. þingmaður hvort komi á undan eggið eða hænan og eitthvað svona álíka gáfulegt. Og það sem hann heldur vera stjórnvaldsaðgerðir, ætli það hafi ekki frekar verið stjórnarandstöðuaðgerðir sem hafa ráðið gagnvart því sem snýr að vöxtunum? Ætli það sé ekki einhver hluti af því að það dróst að fá lánið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Þá kemur nú eitthvert kunnuglegt nafn upp í hugann svona á aðventunni. Ætli það sé ekki eitt stykki Icesave eða svo? Og að halda að það séu stjórnvaldsaðgerðir sem hafi lækkað vaxtastig í heiminum, nei, það hafa þær ekki gert. Ég tók hins vegar ekki þann pól í hæðina í ræðu minni.

Okkur greinir hins vegar á um hvernig við eigum að fara að því að skera niður og ná tekjum og ná halla ríkissjóðs niður. Um það deilum við ekki að það sé mjög mikilvægt að gera það. Ég er hins vegar algerlega á móti því að fara þessa skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar, það hefur alltaf legið ljóst fyrir. Ég vil gera þetta með öðrum hætti. Ég vil gera það með því að taka séreignarsparnaðinn eins og við lögðum til í fyrra. Ég vil fara að skapa störf, skapa vinnu, bæta við veiðiheimildir, flytja út og skapa tekjur fyrir þjóðina, skapa störf en ekki skattpína þjóðina enn frekar. Það er svo furðulegt. Við verðum líka að fara að átta okkur á því að það eru mörg ljós að blikka — eins og gerist í púltinu hjá mér núna þar sem tími minn er að líða — sem bendir til þess að við séum að ganga of hart fram gagnvart heimilunum í landinu og fyrirtækjunum. Við verðum að horfast í augu við það. Það verður mjög sárt til þess að hugsa ef við síðan upplifum það að þau varnaðarorð sem við höfum haft uppi hér muni rætast á árinu 2011. Ég ætla hins vegar að vona, og ítreka það, að þau reynist ekki rétt (Forseti hringir.) en ég hef miklar áhyggjur af því að það sé verið að ganga allt of hart fram gagnvart heimilunum í því ástandi sem nú er.