139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[17:16]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það dróst ekki að Ísland þyrfti að taka lán, hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, Ísland þurfti þess ekki, Ísland þarf þess ekki. Lántakan dróst ekki á langinn heldur breyttust aðstæður í íslensku efnahagslífi með þeim hætti að við þurftum ekki á þeim lánum að halda sem við héldum að við þyrftum á að halda. Þess vegna erum við að greiða lægri vexti en áætlað var að við þyrftum að gera á árinu. Og hvers vegna þurftum við ekki á þeim lánum að halda sem við töldum okkur þurfa á að halda í upphafi árs? Það er vegna þess að efnahagsástandið er betra. Það er betra en var áætlað, við erum að ná betri árangri en áætlað var og um það vitnar fjárlagafrumvarpið, um það vitnar fjáraukalagafrumvarpið sem við erum að ræða í dag og undan því getur hv. þingmaður ekki vikið sér.

Hv. þingmaður nefndi áðan Landspítalann og þá sérstaklega það uppsafnaða tap sem núverandi stjórnvöld sátu uppi með, tóku við af fyrri stjórnvöldum upp á 2,8 milljarða og var sett til hliðar meðan reynt var að ná tökum á rekstri Landspítalans, sem er rekinn innan ramma fjárlaga í fyrsta skipti. Söguleg tíðindi, sagði Ríkisendurskoðun í skýrslu sinni. (Gripið fram í.) Þetta eru söguleg tíðindi ef Landspítalinn verður rekinn innan fjárlagaramma ársins 2010. En það var ekki heldur nefnt. Það var talað um skattpíningu þó að það liggi ljóst fyrir að skattar í dag, eftir þær aðgerðir sem þegar er búið að fara í, eru innan þess sem áður var á tímum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Allan þann tíma sem hlutfall af þjóðarframleiðslu eru skattar innan þess sem þá var þrátt fyrir þær hækkanir sem er farið í. Það er hægt að hrista hausinn endalaust daginn út og daginn inn yfir þeim en þetta eru samt staðreyndir sem blasa við öllum sem vilja á þær horfa.