139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 87/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

155. mál
[17:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þeirri tillögu sem ég mæli fyrir er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 87/2009, sem felur í sér að fella inn í EES-samninginn svokallaða grunnvatnstilskipun sem fjallar, eins og heiti hennar vísar til, um verndun grunnvatns gegn mengun og spillingu.

Þessi tilskipun tengist vatnatilskipuninni svokölluðu og kveður á um sérstakar aðgerðir til að koma í veg fyrir og hafa eftirlit með grunnvatnsmengun. Varla þarf að hafa mörg orð um mikilvægi tilskipunarinnar. Vatn er mikilvæg náttúruauðlind sem ber að vernda. Fjölmörg vistkerfi eru háð grunnvatni og er það víða eins og menn vita notað sem neysluvatn og þess vegna mikilvægt fyrir vernd umhverfisins alls, þó ekki síst fyrir heilbrigði okkar mannanna, að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum styrk mengunarvalda í grunnvatni.

Ráðgert er að lagastoð fyrir grunnvatnstilskipuninni verði veitt með nýrri löggjöf. Sú löggjöf mun líka innleiða móðurgerðina á þessu sviði, hina svokölluðu vatnatilskipun sem ég nefndi áðan, auk þess sem hún mun veita lagastoð fyrir aðrar tengdar gerðir. Frumvarp þess efnis verður lagt fram af hæstv. umhverfisráðherra á þessu þingi.

Þar sem þessi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi, eins og ég hef þegar gert grein fyrir, var hún á sínum tíma tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er samhljóða óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst þannig að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að þegar þessari umræðu sleppir verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.