139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 87/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

155. mál
[17:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mál en það vekur alltaf sömu umræðuna þegar hæstv. utanríkisráðherra kemur með mál af þessu tagi þar sem farið er þess á leit að stjórnskipulega fyrirvaranum verði aflétt, þ.e. hvort við nýtum öll þau tæki sem við höfum til að hafa áhrif á EES-gerðirnar á frumstigi. Ég og hæstv. ráðherra erum ekki sammála um framtíðarmúsíkina í Evrópumálum. Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni heldur hef ég lengi verið áhugamaður um hvernig við komum að þessum málum í upphafi. Ég tel að við höfum í rauninni ekkert inn í Evrópusambandið að gera á meðan við getum ekki uppfyllt og staðið við samninginn sjálfan, en það er kannski aukaatriði.

Varðandi þetta tiltekna mál vekur það athygli mína, kannski í framhaldi af þeirri umræðu sem var áðan um fjáraukalögin, að málið lítur út fyrir að vera tiltölulega meinlaust en mér sýnist það muni með nauðsynlegum lagabreytingum kosta ríkissjóð talsverðar upphæðir. Það segir hér á bls. 2, með leyfi forseta:

„… að innleiðing tilskipunarinnar auki útgjöld ríkissjóðs um 70 millj. kr. á árunum 2011 og 2012, samtals 140 millj. kr., en að frá og með árinu 2013 verði kostnaðurinn að mestu fjármagnaður með sérstakri gjaldtöku á atvinnurekstur sem nýtir vatnsauðlindina. Hún mundi miðast við afnot í samræmi við mengunarbótaregluna og nytjagreiðsluregluna. Undir starfsemi sem nýtir sér vatnsauðlindina með einum eða öðrum hætti hér á landi falla m.a. vatnsaflsvirkjanir, vatnsveitur, tiltekin landbúnaðarstarfsemi, fráveitur, mengandi atvinnurekstur og matvælaframleiðsla.“

Ég hlýt að hafa áhyggjum af að hér séu beinlínis boðaðir nýir skattar á atvinnurekstur í landinu og hækkun útgjalda. Ég velti fyrir mér hvort það sé nauðsynlegt og hvort við hefðum á einhverju stigi getað haft áhrif. Nú veit ég og lýsi því hér yfir að ég er ekki sérfræðingur í grunnvatni og hvernig ástand þess er hér miðað við annars staðar en það er alltaf þessi spurning: Erum við kaþólskari en páfinn að innleiða hér möglunarlaust tilskipanir, sem við gætum komist af án, með tilheyrandi kostnaði og í þessu tilfelli skattahækkunum sem boðaðar eru?

Ég vildi láta þetta sjónarmið koma í ljós og vona að það verði tekið til skoðunar í hv. utanríkismálanefnd.