139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 10/210 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

199. mál
[17:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er ég fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að leita heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2010 um breytingu á IX. viðauka EES-samningsins um fjármálaþjónustu og fella inn í hann ákvörðun um notkun útgefenda verðbréfa í þriðju löndum á tilteknum reikningsskilastöðlum og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikningsskila.

Tilgangurinn er að gera reikningsskilareglur tiltekinna þriðju ríkja jafngildar alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem hafa verið innleiddir í ríkjum Evrópusambandsins þangað til innleiðing þeirra hefur farið fram í þessum tilteknu ríkjum. Í einföldu máli þýðir þetta að samkvæmt ákvörðuninni skuli reikningsskilareglur Japans og Bandaríkjanna þannig metnar að jöfnu við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem hafa verið innleiddir í ríkjum ESB. Ákvörðunin heimilar líka félögum frá þriðju ríkjum að semja ársreikning og árshlutareikning í samræmi við reikningsskilareglur Kína, Kanada, Suður-Kóreu eða Indlands og sú heimild á að gilda til reikningsársins sem hefst 1. janúar 2012.

Þessi innleiðing tilskipunarinnar hér á landi kallar á breytingu á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga. Nú er það svo að frumvarp um breytingu á þeim lögum hefur verið lagt fram tvívegis á fyrri löggjafarþingum en hefur ekki hlotið afgreiðslu. Í frumvarpinu sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hyggst leggja fram að nýju á því löggjafarþingi sem nú stendur yfir er lagt til að ársreikningaskrá skuli hafa eftirlit með því hvort þær skilareglur þriðju ríkja sem ég hef lýst séu hliðstæðar hinum alþjóðlegu skilareglum. Með því er verið að skapa nauðsynlega lagastoð til að innleiða þessa ákvörðun á Íslandi.

Þar sem þessi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingu hérlendis er hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Það er vilji Alþingis að þeim fyrirvara sé aflétt með þingsályktun fremur en að gera það samhliða lagabreytingunni og þess vegna er leitað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í þessari ákvörðun felst þannig að hægt sé að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.