139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 37/2010 um breyt. á XXII. viðauka við EES-samninginn.

235. mál
[17:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessari þingsályktunartillögu leita ég heimildar þingsins til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 37/2010, um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn um félagarétt og fella inn í hann tilskipun þingsins og ráðsins sem varðar kröfur um skýrslugjöf og sömuleiðis um upplýsingar við samruna og skiptingu félaga.

Markmiðið með tilskipuninni er að draga úr stjórnsýslubyrðum í hlutafélögum. Það er dregið úr upplýsingaskyldu þeirra við tilteknar aðstæður hvað varðar gerð skýrslna, skjala og birtingu þeirra, t.d. eru heimildir til að nýta m.a. vef félaganna verulega auknar.

Þessi tilskipun á rætur að rekja til ákvörðunar Evrópusambandsins frá árinu 2007 um að draga úr stjórnsýsluþunga hjá félögum með ýmsum hætti til ársins 2012. Tilgangurinn er að auka samkeppnishæfni félaga í ríkjum sambandsins. Í innganginum að tilskipuninni er m.a. greint frá því að í tilteknum tilvikum megi draga úr upplýsingaskyldu félaganna varðandi skýrslur og skjöl ef allir hluthafar samþykkja. Þetta merkir að reglurnar eiga helst við í félögum sem eru með fáa hluthafa. Sömuleiðis er greint frá því að sé möguleiki á að birta drög að samrunaáætlun og önnur skjöl á vef félaga, jafnvel öðrum vefjum, í stað hefðbundinnar birtingar í hlutafélagaskrá, þá þarf að gæta að hagsmunum annarra aðila en hluthafa, t.d. lánardrottna og stjórnvalda.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hyggst leggja fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, á yfirstandandi þingi sem mun skapa þá lagastoð sem þarf í íslenskum rétti fyrir ákvæðum tilskipunarinnar. Þetta, eins og fyrri mál sem ég hef mælt fyrir, kallar á lagabreytingu. Þess vegna varð þessi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Ég óska eftir samþykki Alþingis fyrir breytingunni á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst þannig að það megi aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að þegar umræðunni lýkur verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.