139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 55/2010 um breyt. á XX. viðauka við EES-samninginn.

236. mál
[17:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég verð að gleðja hv. þingmann með því að ræða hennar kom mér ekki á óvart. Ég bjóst að vísu, miðað við fyrri ræðu hennar í dag og í gær, við töluvert meiri framsýni af hálfu hv. þingmanns. Ég er sammála því að málið þarf að skoða betur. Ég er almennt þeirrar skoðunar að þessi mál eigi að skoða mjög vel í hv. utanríkismálanefnd. Hins vegar er staðreyndin sú að eins og málum er komið varðandi stöðu Íslands innan EES-samningsins þá eigum við ekki margra kosta völ. Við þurfum að innleiða þetta.

Ef við værum innan Evrópusambandsins og hv. þingmaður væri ekki aðeins þingmaður á þessu þingi heldur einnig fyrir sinn flokk og Ísland á Evrópuþinginu þá hefði hún getað notað rödd sína þar. Ef hún hefði komist að þeirri málefnalegu niðurstöðu að þetta væri ekki gott mál fyrir Ísland hefði hún barist gegn því, hún á engan kost á því í dag. Þetta er nú bara svona.

Þess vegna hvet ég hv. þingmann til þess, þegar hún hefur skoðað málið, að skoða betur stöðu sína gagnvart Evrópusambandinu. Hvort hún komist þá ekki hugsanlega að þeirri niðurstöðu sem ég hef komist að að betra sé fyrir hana, fyrir mig og fyrir Ísland að hún endurskoði afstöðu sína til Evrópusambandsins. Hún láti a.m.k. reyna á það hvort þjóðin sé ekki sammála fólki eins og mér um að hag okkar sé betur fyrir komið þarna fyrir innan.

Ég er dálítið hryggur yfir því að hv. þingmaður telur sérstaka ástæðu til að gjalda varhuga við þessu frumvarpi. Það kostar peninga á einum stað en leiðir til fimmfalt meiri tekna annars staðar. Hvað er þá allt okkar starf í 600 sumur ef ekki til að gera hag Íslands á heildina litið betri? Ég er viss um að sá maður sem stendur í dyragættinni, og hefur miklu meira vit á peningum og hvernig á að ávaxta þá en utanríkisráðherrann sem stendur í ræðustóli, er mér örugglega sammála um að 500% ávöxtun er nokkuð góð ávöxtun. Að vísu af reynslu undanfarinna ára þegar slíkum ávöxtum er lofað fer skjálfti um hnjáliðina. Ég segi ekki hrollur niður eftir bakinu. En þetta eru eigi að síður vísindi sem byggð eru á tilraunum og reynslu annarra. Það kemur sem sagt fram að þessi fjárhagslegi ávinningur, sem umhverfisráðuneytið hefur sagt að sé fimmfaldur, er ekki eitthvað sem menn hafa hugsað upp í umhverfisráðuneytinu eða í fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Nei, þetta er byggt á reynslu annarra ríkja.

Af því að hér situr úti í sal annar gildur hagfræðingur sem hefur unnið hjá erlendum hagfræðistofnunum og getið sér gott orð þar eins og víðar, þá er hann örugglega sammála um að þarna eru staðreyndir sem menn byggja á.

Ég ætla svo ekki að þreyta þingmenn [Kliður í þingsal.] með að halda frekari lofræður um þessa góðu tillögu til þingsályktunar. Ef menn skoða þetta komast þeir örugglega að raun um að hér er ekki bara um gott mál að ræða heldur mál sem getur haft í för með sér verulegan fjárhagslegan ávinning fyrir Ísland í heild.