139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

setning neyðarlaga til varnar almannahag.

96. mál
[18:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Mikið vildi ég óska þess að ríkisstjórnin hefði borið gæfu til að hlusta á þau varnaðarorð og tillögur sem hafa komið fram bæði innan sala þingsins sem og annars staðar í samfélaginu sem hefðu getað afstýrt svo mörgum persónulegum harmleikjum sem ég heyri af dag hvern. Ákallið um neyðarlög fyrir heimilin í landinu hefur endurómað um samfélagið allt um langa hríð og vona ég að þessi tillaga okkar um neyðarlög til bjargar heimilunum í landinu fái nauðsynlegan hljómgrunn hjá stjórnarliðum sem og öðrum þingmönnum.

Frú forseti. Fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar brutust út þann 4. október sl. og brást ríkisstjórnin við á þann hátt að skipa nefnd til að reikna út mögulegar lausnir á bráðum skuldavanda heimilanna í landinu. Niðurstöður þeirrar vinnu virtust því miður vera í þá veru að reikna sig frá réttlætinu. Almennar aðgerðir virðast ekki hafa átt upp á pallborðið hjá ríkisstjórninni vegna þrýstings frá skuggastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með dyggum stuðningi frá bönkum og lífeyrissjóðum.

Enn hefur ríkisstjórnin ekki borið á borð lausnir sem taka á þeim víðtæka vanda sem stökkbreytt lán hafa skapað hérlendis. Við viljum því leggja grunn að leið sem vel ætti að vera hægt að fara án þess að hér fari allt á hliðina eins og margir virðast óttast. Það er löngu tímabært að hefja vinnu við að afnema verðtrygginguna og í einlægni trúi ég því ekki að aðrir þingmenn vilji ekki styðja við þá tillögu að óréttlætinu sem í verðtryggingunni felst verði aflétt. Ef ekki er hægt að afnema verðtryggingu húsnæðislána hlýtur að vera eðlileg krafa að laun verði verðtryggð.

Frú forseti. Mjög mikilvægt er að lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur fái framgang og því verði ekki haldið áfram í gíslingu í nefnd. Réttast væri að það yrði afgreitt og annað hvort samþykkir þingið það eða synjar því. Það er eðlilegur gangur mála í samfélaginu nema kannski á þessum vinnustað.

Kveðið er á um það í tillögunni að kröfur fyrnist að hámarki að tveimur árum liðnum frá lokum gjaldþrotaskipta og að ekki verði hægt að halda kröfum við lengur en þeim tímaramma nemur. Þá leggjum við til að ef sá sem selja á íbúðarhúsnæði ofan af biðji um að nauðungarsölu verði frestað til 1. júní 2011, verði orðið við því tafarlaust. Jafnframt að allar nauðungarsölur sem farið hafa fram á grundvelli ólögmætra krafna verði látnar ganga til baka. Það á líka að vera óheimilt samkvæmt frumvarpinu að bera fólk út úr íbúð sinni nema að fenginni staðfestingu sveitarfélags um að viðkomandi sé tryggt viðunandi húsnæði og tryggð lágmarksframfærsla samkvæmt nýjum opinberum og samræmdum framfærsluviðmiðum. Það er löngu tímabært að skilgreina opinber og samræmd lágmarksframfærsluviðmið og gerum við ráð fyrir því að það verði gert eigi síðar en 31. desember 2010.

Ég óska í einlægni að ríkisstjórnin og þingið skoði þessar tillögur að lausnum á bráðavanda heimilanna í landinu og brugðist verði við þeim án tafar. Ég óttast að upp úr sjóði enn á ný ef haldið verður áfram á sömu braut.

Frú forseti. Varla væri hægt að gefa þjóðinni betri fyrirheit en að leyfa henni að upplifa alvöru réttlæti á tímum þar sem margir hafa glatað svo miklu og sjá ekki fyrir endann á hörmungunum. Í ályktuninni felst von sem kemst nærri þeirri skjaldborg sem þjóðinni var lofað í aðdraganda kosninga.