139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

setning neyðarlaga til varnar almannahag.

96. mál
[18:49]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnarfundur í fyrramálið, verður ekki geimvarnaáætlun VG þar til umræðu? [Hlátur í þingsal.] Heldurðu að það verði skuldamálin, hv. þingmaður?

Hvað um það, þetta er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Eins og með Avens-samninginn, það er hægt að nota afraksturinn af honum til þess að fjármagna einhvern hluta af niðurskurði. Við vorum fyrr í dag að ræða fjáraukalögin. Í ljós kom að hallinn á þessu ári er í stað þess að vera 100 milljarðar, eins og var lagt upp með í byrjun ársins, 58 milljarðar. Það eru gríðarlega gleðileg tíðindi. Það stafar af þessum Avens-samningi upp á 17–18 milljarða. Síðan fengu lífeyrissjóðirnir eitthvað, ég veit ekki nákvæmlega hvað þeir fengu mikið, hvort það var svipuð upphæð eða aðeins hærri. En það er ekki nema dropi í hafið. Ég hef kannski ekki mestar áhyggjur af því sem er inni í lífeyrissjóðunum heldur hvernig eigi að takast á við Íbúðalánasjóð. Það er ljóst að þar þarf að fjármagna 120 milljarða. Það eru alveg til leiðir til þess. Við gætum gefið út skuldabréf til 40 ára á lágum vöxtum og fjármagnað þetta þannig. En spurningin er: Er það það réttasta sem við getum gert? Ég held ekki.

Aftur á móti á að taka allar afskriftirnar sem eru í bankakerfinu og færa þær yfir til almennings. Að mínu viti er verið að gera það og það verður væntanlega gert.