139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

86. mál
[19:04]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er því mjög fylgjandi að efla heimspekikennslu og gagnrýna hugsun, mjög því fylgjandi. Það er samt eitt sem ég set spurningamerki við og það er hvort raunverulega sé hægt að kenna siðferði með einu eða tveimur námskeiðum. Við mennirnir höfum staðið frammi fyrir sífelldum siðferðivandamálum frá upphafi. Við sjáum hvernig hin kristna kirkja eða kaþólska kirkjan hefur tekið á því vandamáli, hún hefur reynt að stofnanagera það í einhverju sem kallað er dauðasyndirnar sjö.

Ef maður þekkir dauðasyndirnar sjö og drýgir ekki þær syndir þá hefur maður uppfyllt nokkurn veginn þann mælikvarða að vera, við skulum bara kalla það góður maður. Maður fylgir þá einhvers konar siðferðilegum stöðlum sem allir eiga að geta verið sammála um.

Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að íslenskum menntayfirvöldum muni ganga betur að innræta þá siðferðilegu staðla sem við viljum fylgja með einu, tveimur, þremur, fjórum námskeiðum en til að mynda kaþólsku kirkjunni hefur gengið að innræta þá siðferðilegu staðla sem miða við dauðasyndirnar sjö — og virðist hafa mistekist svo herfilega.