139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

endurskoðun niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu.

[15:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þessar tillögur hafa verið kynntar fyrir forstöðumönnum og í ríkisstjórn, þ.e. um það hvernig eigi að ganga til baka með nokkuð af þeim niðurskurði sem boðaður var í fjárlagafrumvarpinu um heilbrigðisstofnanir. Þar er einkum horft til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, þ.e. það er ekki verið að tala um breytingar á Landspítala og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri nema að hluta til er reiknað með að St. Jósefsspítali og Landspítalinn sameinist. Þeim niðurskurði sem þar er boðaður verður deilt á milli þessara stofnana. Þetta var gert eftir vinnu fimm manna hóps sem fór um landið, heimsótti allar stofnanir og ræddi við heimaaðila plús það að við tókum við fullt af athugasemdum og ábendingum um þessa þætti.

Grundvallarhugmyndin gekk út á það að hér í landinu yrði heilsugæslan efld, hér yrðu grunnþjónusta og umdæmissjúkrahús á ákveðnum svæðum og tryggt að stóru spítalarnir gætu gegnt hlutverki sínu. Þetta er ekki ný stefna, það er unnið eftir þessu áfram í þessu ferli öllu saman þannig að engar grundvallarhugmyndir eru um breytingar í niðurskurðinum, heldur farið heildstætt yfir með hvaða hætti við getum rekið stofnanir þannig að þær geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt þeim lögum sem gilda um heilbrigðismál.

Þetta er sett upp þannig, eins og hefur komið fram, að 3 milljarðar kr. voru áætlaðir í niðurskurð. Þar var hætt við um það bil 1 milljarð kr. beint en öðrum hluta af því frestað og farið úr 3 milljörðum kr. niður í 1.330–1.340 millj. kr. í niðurskurði í staðinn. Þarna eru gefnar til baka um 1.700 millj. kr. Sumt af því er varanlegt, sumt er reiknað með að vinna betur í framhaldinu. Gert er ráð fyrir því (Forseti hringir.) að samstarfsnefnd fari heildstætt yfir landið og vinni endurbættar tillögur fyrir árið 2012.