139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

endurskoðun niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu.

[15:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra segir að ætlunin sé sú að gera þetta með því að ríkið geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. En það hefur einmitt komið fram að það sé hreint ekki víst að ríkið sé að því. Það er raunar ólíklegt, a.m.k. miðað við áformin eins og þau voru kynnt í upphafi samkvæmt lögfræðiáliti sem var unnið fyrir Skagfirðinga og Þingeyinga.

Jafnframt hljóta menn þá að spyrja sig: Er þessi niðurskurður eitthvað frekar lögum samkvæmt? Eru menn að uppfylla skilyrði laga um heilbrigðisþjónustu ef þeir framkvæma niðurskurðinn ekki allan núna, heldur klára hann á næsta ári? Ég fæ ekki séð það og það eru í rauninni mjög alvarleg tíðindi sem ráðherrann flytur hér, að ríkisstjórnin hafi í engu breytt þeim áformum sínum að draga verulega saman í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og ráðast í algjöra kerfisbreytingu í gegnum fjárlög þó að það sé gert á (Forseti hringir.) tveimur árum í stað eins.