139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

sjávarútvegsstefna ESB.

[15:09]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er þrennt sem kom fram í helgarútgáfum dagblaðanna sem veldur því að mig langar að beina orðum mínum til hæstv. utanríkisráðherra. Í fyrsta lagi birtist í Morgunblaðinu óvenjuskýr og skilmerkileg grein eftir hv. stjórnarþingmanninn Atla Gíslason. Þessi lögfróði maður kemst að þeirri niðurstöðu að þegar öllu sé á botninn hvolft feli aðlögun Íslands að sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins einfaldlega í sér að við bökkum með fiskveiðilögsöguna aftur í 12 mílur.

Í öðru lagi segir Graham Avery, sem titlaður hefur verið hvorki meira né minna en heiðursframkvæmdastjóri ESB, af rausn sinni í viðtali við Fréttablaðið að við þurfum ekkert að vera búin að setja upp nýjan strúktúr í stjórnsýslu áður en við fáum aðild. Hann bætir við, með leyfi forseta:

„Í raun er ekki hægt að framfylgja sameiginlegu landbúnaðarstefnunni eða fiskveiðistefnunni áður en þið gerist aðildarríki. ESB vill bara vera öruggt um að þið getið það þegar þar að kemur.“

Í þriðja lagi kemur fram í viðtali við Stefán Hauk Jóhannesson, formann íslensku samninganefndarinnar, í Fréttablaðinu að fyrstu svokölluðu rýnisfundirnir með ESB um sjávarútvegsmál eigi að fara fram 16. og 17. desember.

Virðulegi forseti. Í þessu máli virðist bara eitthvað eitt af þrennu geta gerst ef Ísland á að ganga í Evrópusambandið: Ísland bakki með fiskveiðilögsöguna í 12 mílur, Ísland fái varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sem flestum sérfræðingum ber saman um að sé óhugsandi eða að Evrópusambandið kollvarpi sjávarútvegsstefnunni til að þóknast Íslendingum sem sömu sérfræðingum ber saman um að sé líka óhugsandi.

Hvað af þessu þrennu telur hæstv. utanríkisráðherra að muni gerast?