139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

sjávarútvegsstefna ESB.

[15:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður vísar til þriggja mjög þekktra manna sem komið hafa að sögu Evrópusambandsins og umsóknar okkar, eins kannski minnst en það er sá sem ég tek undir með í þessari umræðu, Avery, þeim sem hv. þingmaður kallaði heiðursformann Evrópusambandsins. Ég geri ráð fyrir því að af þessum þremur heiðursmönnum hafi hann lengsta reynslu af Evrópusambandinu. Hann segir það alveg skýrt í því sem hv. þingmaður las upp að Íslendingar þurfa ekki að vera búnir að ganga frá því með hvaða hætti þeir ætli að laga sig að löggjöf og regluverki Evrópusambandsins. Það er nákvæmlega það sama og ég hef alltaf haldið fram og alltaf sagt að sé stefna Íslendinga.

Það liggur fyrir að það er aðallega tvennt sem við munum þurfa að taka á í þessum samningum. Það verður erfitt og ég hef aldrei dregið dul á það, annars vegar þau vandamál sem kunna að koma upp varðandi landbúnað og hins vegar varðandi sjávarútveg. Um þau munum við semja, t.d. varðandi landbúnaðinn þar sem Evrópusambandið hefur sagt það alveg skýrt að það vilji samkvæmt reglum sínum að við setjum upp einar sex stofnanir til að laga okkur að regluverki þeirra. Um þetta verður samið, alveg eins og önnur vandamál sem við vitum að munu koma upp. Það sem við munum leggja rækt við að gera, eins og ég hef marglýst yfir, er að við munum leggja fram áætlanir okkar um það með hvaða hætti við munum síðan útfæra það sem um verður samið. Það verður ekki gert í meginatriðum fyrr en eftir að þjóðin hefur goldið jáyrði sitt við samningnum. Það liggur alveg ljóst fyrir af minni hálfu.