139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

sjávarútvegsstefna ESB.

[15:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það hefur aldrei brugðist hingað til þegar ríki hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu að Evrópusambandið hefur tekið tillit til þeirra stærstu hagsmuna. Í þessu tilviki er um að ræða sjávarútveg. Ég er þeirrar skoðunar miðað við reynsluna að okkur muni takast að semja um útfærslu sem ekki felur í sér varanlegar undanþágur, það hef ég sagt.

Við höfum sömuleiðis bent á það í skriflegri greinargerð sem við lögðum fram í júlí sl. hvaða hugmyndir við höfum í þeim efnum. Þær koma alveg skýrt fram þar og munu koma enn skýrar fram þegar líður á þennan vetur og Íslendingar birta með útfærðari hætti hvernig þeir vilja haga málum sínum.

Síðan legg ég áherslu á það sem segir í Íslandsskýrslunni frá því í febrúar. Þar er sagt algerlega skýrt að Evrópusambandið geri ráð fyrir því að sjávarútvegsstefnan muni breytast með inngöngu Íslands í Evrópusambandið.