139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

birting leyniskjala frá bandaríska sendiráðinu.

[15:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Sendiherra Bandaríkjanna hefur ekki gengið á minn fund til að tilkynna mér um nein skjöl sem kynnu að varða íslenska stjórnmálamenn eða íslensk trúnaðarmál með þeim hætti að orðið gæti til einhvers skaða. Hins vegar hafði einn af erindrekum sendiráðsins samband við embættismann utanríkisráðuneytisins fyrir nokkrum dögum til að tilkynna að birting á fjölmörgum skjölum væri yfirvofandi. Ég veit ekki hvað er í þessum skjölum og hafði ekki séð þá sundurgreiningu á þeim sem hv. þingmaður fór með áðan.

Við höfum þegar haft nasasjón af því hvers eðlis þau skjöl eru sem bandaríska sendiráðið býr til um íslenskt stjórnmálalíf. Í upphafi þessa árs var einmitt í fyrri birtingu hinna svo kölluðu Wikileaks-skjala að finna nokkur skjöl sem tengdust Íslandi. Þar á meðal var skýrsla og mat bandaríska sendiráðsins á þeim sem hér stendur og afstöðu hans til ýmissa mála. Hið sama var í þeim skjölum um hæstv. forsætisráðherra. Sömuleiðis var birt mjög einhliða frásögn embættismanns úr sendiráðinu af fundi sem hann átti með ráðgjafa mínum og ráðuneytisstjóra. Ég legg sérstaka áherslu á orðin „einhliða“ því að þess eðlis eru öll þessi skjöl. Þetta er mat þeirra sem taka niður af hálfu sendiráðsins. Sömuleiðis var þá birtur útdráttur úr samtali starfsmanns utanríkisráðuneytisins við sendiherra okkar í Washington og m.a. birt nokkur ummæli sem síðar hafa orðið næsta fræg um einn af æðstu embættismönnum lýðveldisins. Ég ímynda mér að þessi skjöl séu af álíka toga, að þetta séu einhliða frásagnir af fundum með íslenskum stjórnmálamönnum í ríkisstjórn, hugsanlega í stjórnarandstöðu einnig og diplómötum (Forseti hringir.) utanríkisþjónustunnar.