139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

birting leyniskjala frá bandaríska sendiráðinu.

[15:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það tíðkast í utanríkisþjónustunni að þegar fundir eru eru teknar niður fundargerðir — (Gripið fram í.) nema þeirra sem fara til Indlands og hv. þingmaður man eftir. Það tíðkast að helstu atriðin úr samtölum sem eiga sér stað eru tekin niður. Hins vegar tíðkast ekki í utanríkisþjónustunni að skrifa skýrslur um einstaka forustumenn annarra ríkja, ekki svo ég viti til. Ég hef ekki lesið slíkar skýrslur. Ég fæ hins vegar reglulega skýrslur frá sendiherrum erlendis um framvindu stjórnmála í þeim löndum, en ef hv. þingmaður er að vísa til þeirra upplýsinga sem fram hefur komið að er að finna í þessum skjölum um einstaka forustumenn í stjórnmálum í ýmsum löndum finnst mér slík skýrslugerð í hæsta máta óviðeigandi. Mér finnst það mjög slæmt ef sendimenn erlendra ríkja safna með einhverjum hætti upplýsingum sem geta leitt af sér skaða (Forseti hringir.) í samskiptum ríkjanna og ég tel að það muni gerast í samskiptum Bandaríkjanna og einhverra af þeim ríkjum sem þarna eiga hlut að máli. Hvort þar verður um að ræða Ísland veit ég ekki.