139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

hækkun vaxtaálags á fyrirtæki.

[15:24]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Mér er ekki kunnugt um að aðgerðir af þeim toga sem hann nefnir í fyrirspurn sinni séu samræmdar eða með einhverjum hætti skipulagðar af hálfu lánastofnana. Líklega er þarna um að ræða einhvers konar mat lánastofnana á áhættu eða þetta endurspeglar fjármögnunarkjör þeirra. Reyndar á ég erfitt með að sjá rökin, sama hvor ástæðan liggur að baki.

Þau dæmi sem hv. þingmaður nefnir undirstrika mikilvægi þess að við tökum hratt og örugglega á skuldavanda fyrirtækjanna. Við höfum unnið með hagsmunasamtökum í atvinnulífi, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fjármálafyrirtækja, að einfaldri aðferðafræði til að ná miklum árangri í skuldahreinsun lítilla og meðalstórra fyrirtækja á næstu mánuðum. Það verkefni er núna á lokastigi og er til lokafrágangs í Samkeppniseftirlitinu og við vonum að Samkeppniseftirlitið afgreiði það frá sér á hverri stundu. Þá er okkur ekki neitt að vanbúnaði að blása til mikillar sóknar í þessum efnum. Eins og fram kom í svari mínu við fyrirspurn hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar keyptu bankarnir lánasöfn fyrirtækjanna á um 40% af kröfuvirði og þeir hafa svigrúm til að mæta þörfum fyrirtækjanna með afskriftum upp á vel á annað þúsund milljarða króna. Það er mjög mikilvægt að fyrirtækin í landinu fái þessa lækkun skuldabyrði sinnar svo þau geti risið undir því að skapa fleiri störf, ráðast í meiri fjárfestingu og bæta aðstæður í efnahagslífinu.