139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

hækkun vaxtaálags á fyrirtæki.

[15:28]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Til að reyna að svara spurningunni er auðvitað ljóst að stórfelldar vaxtahækkanir á lítil og meðalstór fyrirtæki munu hafa skelfileg áhrif á stöðu þeirra og stöðu efnahagslífsins í landinu. Það er ekki heldur eðlilegt að halda til streitu kröfum sem eru umfram greiðslugetu fyrirtækjanna eins og verið er að gera í allt of mörgum tilvikum. Staðreyndirnar tala sínu máli. Það er nýbúið að birta skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika þar sem fram kemur að 40% af heildarútlánum bankakerfisins eru ekki í skilum. Það segir sig sjálft að við slíkt ástand verður ekki unað. (Gripið fram í: Hvað ætlarðu að gera?) Það sem við munum gera núna er að hleypa af stokkunum þessu átaki og ef það gengur eftir eins og að er stefnt munum við fyrir sumarið vera í þeirri stöðu að öll þessi fyrirtæki, á bilinu 5–7 þús., verða búin að fá tilboð um úrlausn skuldamála sinna og tilboð frá (Forseti hringir.) viðskiptabanka sínum um að skuldsetningin sé þá komin í samræmi við það sem virði fyrirtækisins stendur undir. (Gripið fram í: Almennilegar aðgerðir.)