139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

atvinnuuppbygging á Bakka í Þingeyjarsýslum.

[15:29]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Í síðustu viku birti Skipulagsstofnun skýrslu sína um sameiginlegt mat vegna atvinnuuppbyggingar á norðausturhorni landsins, þ.e. virkjun við Kröflu II og Þeistareyki ásamt uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík og tengdra mannvirkja. Þá er ég að tala um flutningsmannvirki.

Álvershlutinn fékk ágæta einkunn í þessari úttekt en aftur á móti er talað um að nokkur áhrif verði af virkjanaframkvæmdum og flutningslínum vegna þessara framkvæmda. Það hefur svo sem alltaf legið fyrir þegar við höfum rætt um þetta mál að einhver áhrif yrðu á íslenska náttúru samfara þessu.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra, í kjölfar þess að skýrslan er komin fram og einbeittur vilji heimamanna, og meiri hluta þingmanna að ég held, er að halda þessu verkefni áfram, hver skoðun hæstv. ráðherra er gagnvart áframhaldi af þessu verkefni. Það er búið að verja mörgum milljörðum króna í að rannsaka og finna orkuna á þessu svæði og eins og ég sagði hérna áðan tel ég meiri hluta á vettvangi þingsins fyrir því að virkja þessa orku til góðra verka, til atvinnuuppbyggingar og atvinnusköpunar á þessu svæði. Við höfum þurft að bíða lengi eftir þessu sameiginlega mati, í heil tvö ár og fjóra mánuði, þannig að seinkun hefur verið vegna aðgerða stjórnvalda hvað þessi mál varðar. Við gætum verið komin lengra áfram í ferlinu.

Þess vegna er mikilvægt að heyra hvað hæstv. ráðherra ætlar sér á næstunni. Hyggst hæstv. ráðherra vinna áfram með heimamönnum að þessari atvinnuuppbyggingu þannig að við getum fjölgað störfum í þessu samfélagi, minnkað atvinnuleysi og horft á atvinnuuppbyggingu á þessu svæði og síðast en ekki síst aukið hag og velsæld íslensku þjóðarinnar?