139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

atvinnuuppbygging á Bakka í Þingeyjarsýslum.

[15:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra ætli að halda áfram að vinna að þessu mikilvæga verkefni en ég vil leiðrétta það að menn bíði í röðum eftir því að kaupa þessa orku. Við höfum verið í samskiptum við heimamenn og þannig er veröldin einfaldlega ekki.

Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að við getum farið í þessa vinnu og unnið markvisst að þessu, áfangaskipt þessari atvinnuuppbyggingu, en það er vilji hjá Alcoa og heimamönnum, og meiri hluta alþingismanna fullyrði ég, að standa á bak við þessa uppbyggingu. Það er kominn tími til að við aukum arðsemi í íslensku samfélagi og fjölgum störfum. Þetta mundi hafa gríðarlega jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum, í Eyjafirði og austur á landi. Síðast en ekki síst mundi þetta bæta kjör þjóðarinnar í heild sinni og ég fagna þess vegna því að hæstv. ráðherra ætlar að vinna áfram með heimamönnum og meiri hluta þingmanna að því að koma þessu verkefni í gang því að fólk á þessu svæði hefur beðið nógu lengi eftir því (Forseti hringir.) að eitthvað verði af aðgerðum.