139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í fjárlögum var gert ráð fyrir því að heildargjöld A-hluta ríkissjóðs á tímabilinu janúar til ágúst 2010 yrðu 379 milljarðar kr. Raunin varð 354 milljarðar kr. sem er 25 milljörðum kr. undir áætlun tímabilsins. Hið hagstæða frávik skýrist að verulegu leyti af lægri vaxtagjöldum en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Við erum að tala um að áætlunum ríkisstjórnarinnar skeikaði um eina 24 milljarða kr. hvað vaxtagjöld áhrærir. Það má skýra að einhverju leyti með því að gert er ráð fyrir minni lántökum frá samstarfsþjóðum í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Framsóknarflokkurinn vill árétta að ríkisstjórnin þarf að taka sig á í áætlanagerð en fagnar um leið að minni lán séu tekin (Forseti hringir.) en áætlað var vegna þess að við erum að horfa upp á gríðarlega mikinn vaxtakostnað sem skýrir að miklum hluta þann halla sem við er að glíma.