139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

úttekt á samkeppnissjóðum á sviði vísinda og rannsókna.

165. mál
[15:59]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Vísinda- og tækniráð ákvað á fundi sínum 19. mars sl. að skipa starfshóp fjögurra ráðuneytisstjóra til að ræða verkaskiptingu sjóða og stofnana sem sinna rannsóknum og nýsköpun. Voru þetta ráðuneytisstjórar mennta- og menningarmálaráðuneytis, iðnaðar-, sjávar- og landbúnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Markmiðið var að kanna hvort hægt væri að efla samvinnu sjóða og stofnana og nýta betur þá krafta sem fyrir eru.

Fyrir næsta fund ráðsins þar á eftir, í júní sl., skilaði vinnuhópur ráðuneytisstjóranna áfangaskýrslu þar sem fjallað var um helstu opinberu samkeppnissjóði, umfang þeirra og lagagrunn, umsýslu og virkni. Starfshópurinn lagði til að Rannsóknarmiðstöð Íslands, Rannís, yrði falið að greina úthlutanir sjóðanna síðustu þrjú árin til að fá betri mynd af því hvernig þeir starfa raunverulega. Ráðið samþykkti tillöguna og Rannís hefur unnið að þessu verkefni síðustu mánuði og mun skila skýrslu fyrir næsta fund Vísinda- og tækniráðs sem verður haldinn 17. desember nk. Á grunni þeirrar skýrslu getur ráðið rætt hvort skynsamlegt sé að sameina einhverja sjóði eða breyta starfsemi þeirra á annan hátt. Fyrr mun afstaða Vísinda- og tækniráðs ekki liggja fyrir.

Í júní sl. var m.a. lögð fram áfangaskýrsla vinnuhóps þessara ráðuneytisstjóra og sú samantekt sem þar var unnin. Hún var unnin til þess að fá glögga yfirsýn og nýta sem best það fjármagn sem rennur til rannsókna og nýsköpunar. Verkefnið er stórt og flókið og var ákveðið að byrja á því að skoða opinbera samkeppnissjóði fyrir rannsóknir og nýsköpun. Hópurinn skoðaði ýmsar skýrslur sem gerðar hafa verið um sjóðakerfi okkar og háskólakerfið. Ýmsir hafa lagt til að samkeppnisfjármögnun rannsókna og vísinda verði einfölduð með auknu samstarfi eða sameiningu sjóða og að hlutverk Ranníss verði endurskoðað til að bæta stefnumótun og eftirfylgni stefnu. Formlegt samstarf á milli þeirra ráðuneyta sem sjóðurinn heyrir undir er fremur takmarkað og í raun er ekki fyrir hendi samræmd yfirsýn um úthlutanir úr opinberum stuðningssjóðum til rannsókna og nýsköpunar. Við fyrstu sýn virðist mega bæta úr þessu, ekki síst ef tekið er tillit til stefnu Vísinda- og tækniráðs og þeirra úttekta sem gerð er grein fyrir í skýrslunni.

Rannís hefur, eins og ég sagði áðan, verið falið að greina til hvaða aðila, stofnana, fyrirtækja, háskóla og einstaklinga styrkir ofantalinna sjóða hafa farið síðustu þrjú árin. Með þessu móti má fá skýrari mynd af starfsemi sjóðanna, hvar þeir gætu unnið betur saman eða hugsanlega sameinast. Hópi ráðuneytisstjóra hefur verið falið að fjalla um verkaskiptingu sjóðanna og stofnana og hefja undirbúning að greiningu á háskólum, rannsóknastofnunum og stærri verkefnum með aukið samstarf og samræmda stefnumótun í huga.

Hv. þingmaður gerði að umtalsefni í ræðu sinni áðan framlög til sjóðanna. Ég held að það sé alveg óhætt að segja, ef talað er af sanngirni, að framlög í sjóðina hafi verið varin nokkuð, rauntölur að vísu staðið í stað eða lækkað, en minna en almennt í niðurskurði samanborið við að menntamálin eru varin. Ég fundaði með formönnum vísindanefndar og tækninefndar og þau hafa þakkað fyrir að þetta sé ekki skorið meira niður en benda á mikilvægi þess að vel sé fylgst með þessu og ekki skorið frekar niður. Ég er alveg sammála því að það er mikilvægt að verja þetta svið.

Lítum til þess hverju var varið í Rannsóknasjóð á árinu 2009, það var þá unnið í fjárlögum fyrir árið 2008 — og var hæstv. fyrirspyrjandi ekki þá menntamálaráðherra? Þá var veitt í Rannsóknasjóðinn 780 millj. kr., 2010 815 millj. kr., 2011 783 millj. kr. Það er ágætt að hafa þennan samanburð fyrst hv. þingmaður kýs að gera þetta að umtalsefni. Tækniþróunarsjóður 2009 — hv. þingmaður var menntamálaráðherra 2008 þegar þetta var samþykkt í fjárlögum — 640 millj. kr., 720 millj. kr. árið 2010 og 720 millj. kr. 2011. Ef allrar sanngirni er gætt er fullum fetum hægt að segja að reynt hafi verið að hlífa þessum sjóðum.