139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

úttekt á samkeppnissjóðum á sviði vísinda og rannsókna.

165. mál
[16:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað sjálfsagður hlutur að reyna að samhæfa störf samkeppnissjóðanna sem eru starfandi á rannsókna- og þróunarsviði. Ég hygg að það sé að nokkru leyti gert á vettvangi Rannís.

En eitt vil ég þó alla vega segja, ég er þeirrar skoðunar að AVS-sjóðurinn sem hefur verið starfandi um nokkurra ára skeið hafi reynst gríðarlega vel eins og hann hefur verið starfræktur. Að mínu mati væri ákaflega óskynsamlegt að sameina þann sjóð öðrum samkeppnissjóðum á þessu sviði. Það eru engin sérstök rök sem hníga að því. Sjóðurinn hefur nýst gríðarlega vel til að standa fyrir alls konar uppbyggingu á sviði sjávarútvegsins. Það skilar auðvitað greininni mjög verulega áfram og er til marks um að sjávarútvegurinn er þekkingariðnaður nr. eitt, tvö og þrjú, hvernig sem á málin er litið.

Hæstv. forsætisráðherra nefndi að reynt hafi verið að verja framlög til rannsókna- og þróunarstarfsemi. Á þessu er a.m.k. ein veruleg undantekning, það er sú stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að hverfa frá stuðningi við (Forseti hringir.) Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Tekin er sú ákvörðun að fella burtu fjárveitingar til þessa mikilvæga sjóðs (Forseti hringir.) á sviði landbúnaðarins og væri fróðlegt að heyra álit hæstv. ráðherra á því hvaða stefnumörkun búi þar að baki.