139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

úttekt á samkeppnissjóðum á sviði vísinda og rannsókna.

165. mál
[16:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það var alveg rétt að á sínum tíma forgangsröðuðum við í erfiðum fjárlögum og fjárlagagerð fyrir árið 2009 í þágu samkeppnissjóðanna. Ég hefði gjarnan viljað sjá áframhaldandi stuðning við allt háskóla- og rannsóknastarf í fjárlögum fyrir árið 2011. Það er ekki. Skorið er niður á þessu sviði sem er miður. Við vitum að til að auka hagvöxt, til að komast fyrr út úr kreppunni, til að læra af reynslu annarra þjóða eins og Finna og fleiri, þá eigum við að fjárfesta í rannsóknum, vísindum og háskólastarfi. Menntamálaráðherra er gert að skera drastískt niður á sviði háskólamála. Háskóli Íslands fær ekki greitt fyrir 1.400 nemendur sem hann er engu að síður neyddur til að taka inn. Þetta er því ekki alveg rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir. Mér finnst vanta pólitíska leiðsögn. Hana skortir af hálfu forustumanns í ríkisstjórninni hvað þetta varðar.

Ég vil engu að síður fagna því sérstaklega að Vísinda- og tækniráð ætli ekki bara að funda 17. desember heldur munu þá líka fjórir ráðuneytisstjórar skila ákveðnum niðurstöðum, skýrslu um það hvernig menn ætla að taka á hugsanlegri sameiningu sjóða.

Varðandi AVS-sjóðinn — ég er ekki endilega að tala um að leggja hann niður. Um hann eiga að gilda alþjóðlegar reglur svo við getum sagt að hann standist alþjóðlegan samanburð hvað varðar kröfur um gæði, rannsóknir og allt sem því fylgir. Við vitum af samanburði á Rannsóknasjóði og AVS að úthlutanir úr sjóðunum voru mjög mismunandi. Það segir manni að ekki eru hafðar að leiðarljósi alþjóðlegar reglur um samkeppni í rannsóknum.

Ég vil engu að síður hvetja hæstv. forsætisráðherra til að styðja dyggilega við bakið á hæstv. mennta- og vísindamálaráðherra hvað þetta varðar og uppbyggingu á þessu sviði til framtíðar. Við hljótum að geta sammælst um að til að komast fyrr út úr þeim erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir er (Forseti hringir.) leiðin ekki sú að skera niður á þessu sviði heldur á að hlúa að því. Þá stuðlum við að því að hagvöxturinn verði meiri til lengri tíma litið.