139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

áhrif flutnings málefna fatlaðra innan skólakerfisins.

63. mál
[16:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa spurningu. Því er til að svara að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekki gert sérstaka úttekt á áhrifum af flutningi á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Þessi umræða og þeir möguleikar sem þar kunna að skapast hafa hins vegar verið hafðir í huga, bæði við setningu reglugerða og reglna og við mótun þjónustunnar enda hefur þetta staðið til í nokkurn tíma þó að ekki hafi verið nákvæmlega víst hvenær það kæmi til framkvæmda.

Það liggur fyrir að með flutningi málaflokksins yfir til sveitarfélaganna aukast möguleikar á þjónustu í nærsamfélaginu. Samræming í þjónustu er eitt af leiðarljósunum. Ég vil nefna í því samhengi, af því að í nýjum lögum um leik- og grunnskóla frá 2008, sem hv. þingmaður þekkir vel, er sérstaklega tekið á málefnum sérfræðiþjónustunnar, að nýlega hafa verið gefnar út tvær reglugerðir sem lúta að þjónustu við fatlaða í leik- og grunnskólum út frá þessum nýju lögum. Um er að ræða reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga í leik- og grunnskóla og um nemendaverndarráð í grunnskólum og svo reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla. Þetta eru reglugerðir nr. 584 og 585. Þar var haft mikið samráð við sveitarfélög sem reka leik- og grunnskóla en líka hafður í huga þessi yfirvofandi flutningur á málefnum fatlaðra.

Samkvæmt lögunum skulu sveitarstjórnir hafa frumkvæði að samstarfi um sérfræðiþjónustu á þeirra vegum vegna einstakra nemenda og skólastjórar í grunnskólum skulu hafa frumkvæði að samstarfi við sérfræðiþjónustu sveitarfélags, félagsþjónustu, barnaverndaryfirvöld og heilbrigðisþjónustu innan sveitarfélagsins. Í leikskólum skal skólastjóri stuðla að samráði við sömu aðila vegna málefna einstakra barna. Í reglugerðunum er kveðið á um einstaklingsbundna tilfærsluáætlun fyrir fatlaða nemendur úr grunnskóla í framhaldsskóla þar sem gert er ráð fyrir að nemendur, foreldrar, kennarar og aðrir fagaðilar starfi saman og einnig er kveðið á um móttökuáætlun fyrir nemendur með sérþarfir þar sem gerð skal grein fyrir samstarfi innan skólans um kennslu, aðbúnað, aðstöðu, einstaklingsnámskrá og fleira. Enn fremur er kveðið á um réttindi nemenda til að nýta viðeigandi samskiptamáta og má þar nefna táknmál, blindraletur og fleiri slíka samskiptamáta.

Við teljum að framkvæmd þessara ákvæða geti styrkst mjög við að sveitarfélög beri ábyrgð á þjónustu fyrir fatlaða. Samhæfing sveitarstjórna og skólastjórnenda á þjónustu við fatlaða og framkvæmd einstakra ákvæða reglugerða um fyrirkomulag þjónustunnar í leik- og grunnskólum ætti að verða auðveldari þegar ábyrgð á málefnunum liggur hjá sveitarstjórnum, þ.e. bæði á málefnum fatlaðra og leik- og grunnskóla.

Hv. þingmaður nefndi framhaldsskólana. Sérfræðingar úr mennta- og menningarmálaráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti hafa átt samstarf um málefni fatlaðra nemenda á því skólastigi. Markmiðið með því hefur verið að kortleggja hvernig þjónustan sem nemendur í framhaldsskólum njóta snertir verksvið hvors ráðuneytis fyrir sig og koma með tillögur um mögulegar breytingar. Þar er meðal annars stuðst við nýtt þjónustumat sem félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur látið þýða og staðfæra. Því er ætlað að meta stuðningsþörf fatlaðra einstaklinga til að gera þjónustuaðilanum kleift að veita stuðning við hæfi með það að markmiði að einstaklingurinn geti lifað sem sjálfstæðustu lífi. Unnið er að því að þýða og staðfæra þjónustumat fyrir aldurinn frá 0–16 ára og stefnt er að því að þessi tvö ráðuneyti vinni saman í þeirri vinnu og hún verði tengd við þjónustu við fatlaða á vegum sveitarfélaga.

Undanfarin ár hafa velferðarráðuneytin þrjú, mennta- og menningarmálaráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti, unnið með Sambandi íslenskra sveitarfélaga að málefnum barna með þroskaraskanir og langveikra barna. Er ætlunin að styðja sérstaklega á næsta ári við þennan hóp með styrkjum til verkefna til sveitarfélaga og einstaklinga. Ég mundi því meta það sem svo að bæði samstarf ráðuneytanna og líka ríkis og sveitarfélaga hafi markvisst verið að aukast á undanförnum árum. Þar skiptir ekki litlu máli nýja lagasetningin því að þar er nemandinn settur í forgrunn. Þar er hugmyndafræði skóla án aðgreiningar höfð að leiðarljósi og við reynum að fylgja þeim anda mjög skýrt eftir í reglugerðunum og höfum þar lagt áherslu á samráð. Við teljum, eins og ég sagði áðan, að þessi tilflutningur geti styrkt þessa þjónustu til lengri tíma litið.