139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

kaup Ríkisútvarpsins á efni frá sjálfstæðum framleiðendum.

149. mál
[16:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Jú. Ég treysti því að Ríkisútvarpið vilji halda áfram á þeirri braut að kaupa af sjálfstæðum framleiðendum. Ég held að það sé einhugur um að við endurskoðum þjónustusamninginn. Hins vegar held ég að mikilvægt sé — ég gleymdi að nefna það í fyrra svari mínu — að efni samningsins verði kynnt áður en frá honum er gengið. Það er mikilvægt að ræða efni hans við sjálfstæða framleiðendur, kvikmyndagerðarmenn og aðra aðila og kynna hann almennt.

Eins og allir hér inni þekkja þá ræðum við oft um Ríkisútvarpið. Við gerum miklar kröfur á hendur Ríkisútvarpinu. Stundum ræðum við um hlutverk þess gagnvart byggðum landsins, stundum ræðum við um lýðræðishlutverkið og umfjöllun um stjórnmál, kosningar og annað slíkt. Síðan er það menningarhlutverkið sem hv. þingmaður nefnir sem er líka mikilvægt. Ég held að það skipti máli að við reynum að leggja bæði áherslu á forgangsröðun í þjónustusamningnum og koma til móts við flesta með þessum sjónarmiðum. Ég held hins vegar, eins og ég sagði, að Ríkisútvarpið sé reiðubúið að koma til móts við hugmyndir um að kaupa efni af sjálfstæðum framleiðendum.

Ég lít á það sem langtímaverkefni og það er mikilvægt að horfa til styrkingar sjónvarpssjóðsins og byggingarsjóðsins til lengri tíma. Það verður vonandi úthlutað eftirstöðvunum úr Menningarsjóði útvarpsstöðva núna eftir áramótin. Vonandi nýtist það í sjónvarpsþáttagerð og gerð á dagskrárefni fyrir sjónvarp og útvarp. Það skiptir máli að horfa á þetta til lengri tíma í þeim efnum. Eins og hv. þingmaður nefndi liggur fyrir skýrsla um stöðu og gildi kvikmyndagerðar og hvert við getum stefnt. Við þurfum að huga að nýrri sókn í þeim efnum eftir niðurskurðinn sem hefur verið á sl. ári.