139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytisins á faglegu háskólastarfi.

66. mál
[16:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra út í það hvaða línur hann hefur lagt þegar kemur að niðurskurði til háskólastarfs. Við vitum að við komumst ekki hjá því að spara á þessum tímum og ég held að allir séu meðvitaðir um það. Það skiptir hins vegar afskaplega miklu máli þegar við erum að spara að við gerum það rétt. Ég hef sérstakan áhuga á því að vita hvernig menn nálgast þetta í háskólastarfinu.

Það er þannig, virðulegi forseti, að það eru til ákveðnar akademískar kríteríur þar sem háskólastarf er mælt. Alls staðar er mælt út frá tvennu: Hversu mikið skrifað er í erlend ritrýnd vísindatímarit og sömuleiðis gæði skrifanna. Það er alla jafna notað sem sérstakur grundvöllur þegar áætlun er gerð um háskólastarf og sérstaklega niðurskurð.

Það er sömuleiðis mikilvægt að hér sé virkt akademískt frelsi og akademískt frelsi í einföldustu skilgreiningu þýðir að fólk verði ekki látið líða fyrir skoðanir sínar.

Það er nú svo, virðulegi forseti, að við erum ung þjóð og háskólastarf okkar er ekkert sérstaklega gamalt. Við erum hins vegar að keppa um fólk sem hefur náð langt á hinum ýmsu sviðum akademíunnar og núna á þessu endurreisnartímabili er afskaplega mikilvægt að við höldum í það og sækjum fram á þessu sviði sem og öðrum. Það er hægt ef við höldum rétt á hlutunum.

Ég vildi þess vegna spyrja, virðulegi forseti, hæstv. ráðherra:

1. Er einhver trygging fyrir því af hálfu ráðuneytisins að á niðurskurðartímum sé beitt faglegum viðmiðum þegar teknar eru ákvarðanir um hvar bera eigi niður í háskólum landsins?

2. Fylgist ráðuneytið með því að við íslenska háskóla sé staðið við almennar reglur um akademískt frelsi?

Nú er, virðulegi forseti, ekki hugmyndin á bak við spurninguna að ég vilji að hæstv. ráðherra hafi bein afskipti af einstökum ákvæðum innan skólanna. Þetta snýst ekki um það. Ég vona að enginn hafi fengið slíkar hugmyndir. Hins vegar skiptir miklu máli að við stöndum vel að málum. (Forseti hringir.) Þetta er nokkuð sem er almennt og ætti að vera fullkomlega viðurkennt.