139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

staðbundnir fjölmiðlar.

225. mál
[16:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Það er ekki langt síðan ég átti orðaskipti við hæstv. menntamálaráðherra um framfærslu námsmanna. En síðan hafa þær skemmtilegu fréttir borist okkur þingmönnum að hæstv. ráðherra sé barnshafandi og vildi ég lýsa yfir mikilli ánægju með það og óska hæstv. ráðherra innilega til hamingju, enda einn minn uppáhaldsráðherra eins og ég hef oft sagt úr ræðustól þingsins.

Ég vona að þessi inngangur fari það vel í ráðherrann að hún muni bregðast vel við málaleitan minni. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé reiðubúin að beita sér fyrir því að skipaður verði starfshópur sem taki út stöðu staðbundinna fjölmiðla og leggi fram tillögur að bættu rekstrarumhverfi þeirra. Ég spyr í ljósi þess að við nokkrir þingmenn höfum lagt fram tillögu til þingsályktunar þess efnis að Alþingi álykti að fela hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að skipa nefnd er athugi stöðu staðbundinna fjölmiðla og rekstrarumhverfi þeirra og skili skýrslu eigi síðar en 1. mars 2011. Nú er það svo að gangur þingsins getur verið hægari en menn hafa þolinmæði til en hæstv. ráðherra hefur sýnt í máli sem hún tók frumkvæði að, að hægt er að skipa nefnd sem þessa eða starfshóp með tiltölulega stuttum fyrirvara og góðum vilja. Þess vegna nefni ég þetta hér.

Nú þarf ekki að fara í grafgötur með það hvert mikilvægi staðbundinna fjölmiðla er á landsbyggðinni. Fjölmörg héraðsfréttablöð vítt og breitt um landið sinna mjög mikilvægu hlutverki er snertir sjálfsmynd viðkomandi byggðarlaga. Við höfum líka fylgst með þeirri þróun að sveitarfélögin hafa verið að stækka til muna vítt og breitt um landið og eiga mögulega eftir að stækka. Þar með eykst hlutverk staðbundinna fjölmiðla enn frekar í kjölfarið vegna þess að menn gagnrýna sameiningu sveitarfélaga, m.a. út frá þeim punkti að lýðræðið, nærlýðræðið, minnki fyrir vikið.

Ég vil líka minna hæstv. ráðherra á að tilmæli eru frá Evrópuráðinu um að ríki hugi að því hvort ástæða sé til að veita prentmiðlum og útvarpsmiðlum sérstakan fjárstuðning, einkum svæðisbundnum miðlum. Af framansögðu tel ég mikilvægt að hæstv. ráðherra taki vel í þessa málaleitan okkar nokkurra þingmanna sem leggjum þetta til. Það er líka ljóst í ljósi efnahagsaðstæðna og rekstrarumhverfis fjölmiðla á landsbyggðinni að aldrei hefur verið eins mikilvægt og nú að skoða starfsumhverfi þeirra og reyna að bæta það. Ég vil líka minna á að starfsemi Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni hefur skerst allverulega. Þess vegna hefur gildi staðbundinna miðla aukist til mikilla muna á undangengnum árum.

Að loknum þessum inngangi og fyrirspurn vil ég því góðfúslega óska eftir því að hæstv. ráðherra taki vel í viðleitni okkar þingmanna um að skoða sérstaklega stöðu þeirra mikilvægu miðla sem starfa á landsbyggðinni.