139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

staðbundnir fjölmiðlar.

225. mál
[16:53]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góðar óskir. Það er áhugavert að hún er komin upp í pontu þingsins, þessi blessaða ólétta.

En ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir spurninguna. Ég vil fyrst segja að það er auðvitað ljóst að fjölbreytt fjölmiðlaflóra og þar með taldir staðbundnir fjölmiðlar er mjög nauðsynleg í hverju lýðræðisríki, bæði til að vera vettvangur umræðu en líka til að fólk fái aðgang að upplýsingum svo það geti mótað sér skoðanir. Það er mjög mikilvægt að fjölmiðlar búi við þannig umhverfi að þeir geti rækt starfsemi sína.

Það liggur líka fyrir að efnahagshrunið hefur gert það að verkum að fjölmiðlar búa við verri kjör, meðal annars vegna minnkandi auglýsingatekna. Slíkt ástand er auðvitað alvarlegt í sjálfu sér því að kröfur almennings lúta m.a. að því að fjölmiðlar gegni hlutverki sínu sem fjórða valdið og upplýsi um atburði, málefni líðandi stundar, miðli fréttaskýringum og fletti ofan af málum. Því má segja að um leið og kröfur á fjölmiðlana hafa aukist þá hefur rekstrarumhverfi þeirra versnað.

Ef við lítum til nágrannaríkja okkar þegar kemur að heildarstefnumótun um fjölmiðla þá held ég að við Íslendingar getum lært margt af þeim. Þar skiptir máli að hafa heildarstefnumótun um fjölmiðla sem er m.a. það sem reynt er að gera með fjölmiðlafrumvarpinu sem nú liggur fyrir. Ég held að það skipti máli að marka skýran ramma um alla fjölmiðla, óháð miðlunarleið og óháð stærð, þannig að blaðamenn og fjölmiðlarnir sjálfir búi allir við sömu rammalöggjöf.

Hv. þingmaður nefndi Ríkisútvarpið. Ég held að sterkt ríkisútvarp sé grundvallarþáttur í því að setja ákveðinn gæðastuðul fyrir faglega blaða- og fréttamennsku. Síðan held ég að væri mjög áhugavert langtímamarkmið að skoða hvort hægt sé að taka upp einhvers konar styrki til einkarekinna fjölmiðla. Það kerfi þekkjum við frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð en þar er ætlunin með slíkum styrkjum að stuðla að fjölbreytileika og margbreytileika á fjölmiðlamarkaði. Þar er mikilvægt að skoða sérstaklega staðbundna fjölmiðla því þeir eru iðulega vettvangur staðbundinna upplýsinga og samfélagslegrar umræðu á því svæði sem þeir starfa. Við sjáum að þessi umræða er mjög virk víða í nágrannaríkjum okkar.

Ég vil líka taka það fram að í þessum ríkjum er svolítið mismunandi fjölmiðlalöggjöf fyrir ólíka þætti fjölmiðlunar en þeim er ætlað að vega hverjir aðra upp og móta samanlagt ákveðna heildarstefnu. Þannig eiga til að mynda útvarpslöggjöf, lög um prentrétt, lög um ríkisfjölmiðla og um styrki til dagblaðaútgáfu og heimilda- og kvikmyndagerðar svo eitthvað sé nefnt, sameiginlega að stuðla að því markmiði að fjölbreytni ríki á fjölmiðlamarkaði. Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við skoðum löggjöf okkar, að þar vinni hver löggjöfin með annarri og stuðli að því að allir íbúar samfélagsins fái aðgang að ólíkum fjölmiðlum og mismunandi dagskrá án tillits til búsetu og efnahags. Stuðla þarf að því að helst komi fram a.m.k. tvö ólík sjónarmið, bæði í staðbundnum fjölmiðlum og þeim sem ná til alls landsins til að stuðla að fjölbreytni og fjölræði. Ef við lítum á löggjöf nágrannaríkjanna þá miðar hún að því að stuðla að umhverfi þar sem einkareknir fjölmiðlar geta þrifist og dafnað en um leið eru þar sjálfstæðir og sterkir almannafjölmiðlar.

Við erum auðvitað fámenn þjóð en í raun er ótrúlegt að sjá hve gróskumikill fjölmiðlamarkaðurinn hefur verið hér í mörg ár. Það verður seint hægt að gera sömu kröfur til fjölbreytni á markaði hér á landi eins og finna má hjá milljónaþjóðum en ég held hins vegar að við getum líka litið til fámennari þjóða. Ég get nefnt Lúxemborg sem dæmi sem er mjög lítið land með svipaða íbúatölu og við. Þar eru sjö dagblöð og að mig minnir eru fimm þeirra ríkisstyrkt. Þar er litið á það sem eðlilegan hluta af samfélagslegum skyldum að styrkja þennan vettvang fjölmiðlunar.

Ég tek vel undir tillögu eða fyrirspurn hv. þingmanns. Ég þarf að kynna mér betur þingsályktunartillöguna og greinargerð sem liggur frammi með henni en ég held að þar sé vísað í svipuð rök og ég hef nefnt í svari mínu. Ég tel alveg sjálfsagt að skoða möguleika á að skipa starfshóp sem skoði og greini stöðu og rekstrarumhverfi staðbundinna miðla í nágrannaríkjum okkar og sambærilegum ríkjum getum við sagt, og geri tillögur um hvaða langtímastefnumótun við getum sett fram í þessum efnum.