139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

staðbundnir fjölmiðlar.

225. mál
[16:59]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. fyrirspyrjanda Birki Jóni Jónssyni fyrir að koma upp og vekja athygli á málefnum er tengjast staðbundnum fjölmiðlum sem eru ákaflega mikilvægir fyrir lýðræðislega vitund okkar, hvar í sveit sem þeir eru settir. Þetta eru að mínu viti mjög þróttmiklir miðlar.

Í fjölmiðlun er afskaplega mikilvægt að mínu viti að endurspegla þjóðfélagið eins og það er. Það gera staðbundnir fjölmiðlar í meira mæli en margir aðrir miðlar sem eru staðbundnir í Reykjavík. Ég vil nota tækifærið til að hrósa Ríkisútvarpinu sem hefur tekið sig á í málum er tengjast fréttum utan af landi. Það er vel en enn betur gera þessir þróttmiklu miðlar hringinn í kringum landið sem hér hafa verið til umfjöllunar. Þeir eiga að njóta stuðnings frá hinu opinbera í einhverjum mæli, alveg eins og við leggjum fé í Ríkisútvarpið. Þar vil ég sérstaklega horfa til auglýsinga og beina orðum mínum til hæstv. ráðherra að hún sjái til þess (Forseti hringir.) að þessir miðlar búi ekki við skarðari hlut en hinir stóru miðlar í Reykjavík hvað auglýsingar frá ríkinu snertir.