139. löggjafarþing — 38. fundur,  29. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[17:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eftir því sem ég man og upplýsingum sem ég hef fengið hafa undir þúsundi sótt um. Nokkuð langt undir þúsundi, mig minnir að það séu kannski 700–800. Umboðsmaður skuldara er tiltölulega nýfarinn í gang þannig að ekki er hægt að búast við miklum afköstum eða að menn klári mörg mál á þeim stutta tíma. Það þarf að afla gagna og semja og annað slíkt þannig að ferlið tekur eina tvo, þrjá mánuði þar til samningar nást. Við megum ekki gera of miklar kröfur til umboðsmanns skuldara að þessu leyti.

Ég tel, án þess að vita nokkuð um það frekar en aðrir, að þarna sé um að ræða 5 þús. heimili — plús/mínus eitthvað töluvert mikið, menn vita ekkert um það — sem þurfa að fara í gegnum einhvers konar greiðsluaðlögun vegna vandamála sem upp hafa komið hjá heimilum. Sérstaklega vegna forsendubrests sem varð hjá fólki. Það missti atvinnuna, það missti hluta af tekjum sínum, það missti yfirvinnuna, það missti hitt starfið sitt, margir voru í tveim störfum og sumir lækkuðu í launum. Þessi forsendubrestur sem menn áttu ekki von á gerir það að verkum að mánaðartekjur viðkomandi einstaklings geta hæglega hrapað um 200 þús. kr. Það er náttúrlega eitthvað sem gerir það að verkum að menn eiga erfitt að borga af lánum eða leigu. Það er líka fjöldi leigjenda í þessu landi, eitthvað um 20 þúsund. Þessi forsendubrestur gerir það að verkum að menn geta ekki borgað húsnæðisgreiðslur sínar sem oft ogtíðum eru verðtryggðar. Menn geta ímyndað sér ef allir væru í rífandi vinnu eins og var fyrir hrun þá mundi vandinn verða miklu minni.