139. löggjafarþing — 39. fundur,  30. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvernig hv. þingmanni eiginlega kemur til hugar að hér verði samþykkt fjárlög fyrir árið 2011 án þess að heilbrigðisnefnd eða nokkur maður viti hvernig tillögur munu liggja fyrir. Í morgun fór fram kynning á þeim breytingum sem heilbrigðisráðuneytið leggur til í fjárlaganefnd. Þar var farið yfir forsendurnar, farið yfir þá vinnu sem var lagt í eins og kom fram í fjárlagafrumvarpinu. Þetta er endurskoðun milli 2. og 3. umr. Það er búið að fara um allt land, fara yfir starfsemi stofnananna, endurskoða og greina hvað þurfi til til að þessar stofnanir geti starfað óbreyttar áfram með tilliti til þeirrar þjónustu sem krafist er eða ætlast er til að þær veiti samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Þessi greining hefur farið fram og í þessari yfirferð kom í ljós að grunnurinn að rekstri var ekki alls staðar sem skyldi, þ.e. það var verið að færa til fjármagn innan sömu stofnunar á milli sviða, samanber Heilbrigðisstofnunina á Húsavík og St. Jósefsspítala. Þar hafði fjármagn verið fært á milli sviða og þannig staðinn vörður um ákveðna þjónustu.

Þetta er ekki alveg út í bláinn. Það er búið að gera þessa greiningu. Á nefndadögum á fimmtudag og föstudag fer heilbrigðisnefnd að sjálfsögðu yfir þennan grunn um þessar breytingartillögur þannig að það sé alveg ljóst í heilbrigðisnefnd á hvaða forsendum fjárlagafrumvarpið byggist hvað varðar tillögur og breytingar á afgreiðslu við heilbrigðisþjónustuna. Þetta er viðkvæm þjónusta og það er alveg sama hvar í flokki við stöndum, við berum öll (Forseti hringir.) þá ábyrgð að standa vörð um það að við brjótum hvergi á neinum. En allar stofnanir verða að spara, og það gera heilbrigðisstofnanirnar sér ljóst í þeim þrengingum og því efnahagshruni (Forseti hringir.) sem varð hér og er enn.