139. löggjafarþing — 39. fundur,  30. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:25]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem kom út 23. þessa mánaðar, kemur fram að hagvöxtur á næsta ári verði mun minni en áður var talið. Gert var ráð fyrir að hér yrði um 3,2% hagvöxtur en nú er hann undir 5% og OECD telur að hann verði ekki nema um 1,5%. Þetta eru grafalvarleg tíðindi en því miður verður það að skrifast fyrst og fremst á afar daufa og verklitla ríkisstjórn sem hefur ekki tekist að koma mannaflsfrekum framkvæmdum af stað, hvorki hvað varðar orkufrekan iðnað né samgönguúrbætur í samvinnu við lífeyrissjóðina.

Mig langar samt að hrósa ríkisstjórninni fyrir tvennt sem henni hefur tekist með miklum ágætum. Í fyrsta lagi að hafa tekist að þykjast vera að vinna hörðum höndum þegar við blasir að lítið sem ekkert gengur undan henni. Í öðru lagi að hafa tekist að kenna öllum öðrum en sjálfri sér um af hverju lítið sem ekkert gerist. Í fyrstu var það Icesave sem nú blasir við að hafði engin áhrif á uppbyggingu í orkufrekum iðnaði, ég held að allir séu sammála um það og guði sé lof þá erum við ekki að borga um 40 milljarða í vexti fyrir árið 2010 auk ársins 2009 sem tókst að koma í veg fyrir. Nú er Alþingi öllu kennt um að ríkisstjórnin kemur ekki málum í gegnum Alþingi, að framkvæmdarvaldið kemur ekki málum í gegnum Alþingi og þar eru allir settir undir sama hatt.

Í því sambandi vil ég segja að það er meiri hluti á Alþingi sem ákvað að starfa saman. Hann hefur öll völd í hendi sér til þess að vinna að atvinnuuppbyggingu (Forseti hringir.) og auknum hagvexti. Ég skora á þennan meiri hluta að vinna að því hörðum höndum (Forseti hringir.) að koma atvinnulífinu af stað og auka hagvöxt og taka svo (Forseti hringir.) málefnalega og efnislega umræðu við okkur í stjórnarandstöðunni.