139. löggjafarþing — 39. fundur,  30. nóv. 2010.

lánshæfismat Íslands -- sameining sjúkrahúsa -- afgreiðsla fjárlaga o.fl.

[14:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða, farið um víðan völl. Ég taldi mjög brýnt að bregðast aðeins við orðum hæstv. fjármálaráðherra um það að nú sé hætt allt tal um greiðslufall íslenska ríkisins. Ég man ekki betur en að fyrir ári höfum við staðið í þessum þingsal og hafið hinar miklu og löngu umræður um Icesave-samninga ríkisstjórnarinnar. Ég man ekki betur en að hræðsluáróður ríkisstjórnarinnar og talsmanna hennar í þeim málaflokki og því máli öllu hafi aðallega snúist um að ef þingheimur mundi ekki láta kúga sig til að samþykkja þetta samkomulag mundi hér allt stefna í greiðslufall íslenska ríkisins. (VigH: Rétt.) Er þetta ekki rétt munað hjá mér? Ég man ekki betur en að ég hafi staðið (Gripið fram í.) hér í þessum ræðustól og átt orðaskipti við þá stjórnarliða sem þorðu þó að tjá sig um þetta mál og héldu þessu fram í umræðunni. Þessu verður að halda til haga. Það er ríkisstjórnin sjálf sem ber ábyrgð á þessari umræðu og ekki síst þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem sífellt standa hér og tala niður íslensku krónuna með því að vísa til þess að eina leiðin út úr þessum vanda okkar sé að fara í Evrópusambandið sem er röng fullyrðing. Menn skulu einfaldlega átta sig á því að allt sem þeir segja í þessum stól er munað, líka það sem menn sögðu í Icesave-umræðunni. Við skulum bara muna hvernig sú umræða endaði — íslenska þjóðin mætti á kjörstað og sagði nei.

Varðandi þá umræðu sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hóf hér þar sem skorað var á aðila vinnumarkaðarins að hækka lágmarkslaun væri vissulega gott ef það væri hægt, en þar ber ríkisstjórnin líka mikla ábyrgð. (Gripið fram í.) Hvernig aðstæður hefur ríkisstjórnin skapað íslenskum fyrirtækjum á undanförnum mánuðum? Hvernig aðstæður eru það? Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin sjálf beri ábyrgð á því hvernig staða íslenskra fyrirtækja er. Vissulega væri gott og gaman ef það væri hægt að hækka lágmarkslaunin, það er þarft, en hins vegar stuðlar umhverfið (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin skapar ekki að því.