139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

mótgreiðsluframlag ríkisins í Lífeyrissjóð bænda.

[14:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2011 kemur fram að ekki eru áætlaðar greiðslur til Lífeyrissjóðs bænda. Á yfirstandandi ári voru greiðslur skornar niður um 147 millj. kr. og nú er gengið alla leið og 0 kr. áætlaðar á þennan fjárlagalið. Það er niðurskurður um 178 millj. kr. sem skiptast þannig að tæplega 64 millj. kr. eru mótframlag til sauðfjárbænda en rúmlega 113 millj. kr. til kúabænda. Á tveimur árum er þannig skorið niður um 325 millj. kr. til Lífeyrissjóðs bænda. Það er gert án þess að um það hafi verið tekin yfirveguð umræða, hvorki hér innan þings né við hagsmunaaðila. Með öðrum orðum hefur framkvæmdarvaldið tekið einhliða ákvörðun sem kemur einungis fram í fjárlögum um að hætta að greiða mótframlag atvinnurekenda til Lífeyrissjóðs bænda.

Með fjáraukalögum sem runnu í gegnum þing í gær var samþykkt að setja 294 millj. kr. vegna ársins 2010 þannig að það dekkar hluta af þeim niðurskurði sem var farið í á þessu ári en engu að síður er niðurskurður næsta árs þá 100%.

Nú má spyrja sig af hverju ríkið hafi verið að greiða til lífeyrissjóðsins, hvort það sé ekki óeðlilegt og hvort því sé ekki sjálfhætt. Sjálfur gæti ég vel fallist á að einfalda greiðslukerfið og leggja af greiðslur til Lífeyrissjóðs bænda. Þá verðum við að skoða söguna. Allt frá 1971, þ.e. frá stofnun Lífeyrissjóðs bænda, hefur ríkisvaldið greitt mótframlag bænda í sjóðinn. Greiðslurnar hafa ekki verið nein ölmusa. Þar hafa samningar m.a. snúist um hækkun á olíugjöldum og blandast inn í búvörusamninga. Það hafa komið margvíslegar tilslakanir og eftirgjafir af hálfu Bændasamtakanna, sem sagt hafa greiðslurnar verið samningsbundnar. Nú bregður hins vegar svo við að hæstv. fjármálaráðherra sker greiðslur þessar niður einhliða án samninga við bændur eða lífeyrissjóð þeirra. Ég vil því leggja tvær spurningar fyrir hæstv. ráðherra:

Ef leggja á niður framlög sem hafa verið samningsbundin frá 1971, er þá ekki eðlilegt að slík stefnumörkun og umræða sé tekin fyrst og síðan komi ákvörðunin fram í fjárlögum í stað þess eins og nú að órædd niðurstaðan komi fram óundirbúin í fjárlagafrumvarpi 2010 og nú 2011?

Þrátt fyrir að ekki sé um að ræða undirritaðar skuldbindingar við Lífeyrissjóð bænda og Bændasamtökin, finnst hæstv. ráðherra þá ekki eðlilegt að virða samkomulag sem hefur verið virkt frá 1971 og að eðlilegast hefði verið að hefja viðræður við lífeyrissjóðinn og Bændasamtökin áður en slík ákvörðun var tekin?

Hvað þýðir þetta fyrir lífeyrissjóðinn og bændur? Þessi ákvörðun hefur ekki áhrif á sjóðinn og lífeyrisréttindi þurfa ekki að skerðast, enda er hann vel rekinn og með varfærna fjárfestingarstefnu eins og fram hefur komið hjá stjórnendum sjóðsins og fór sér því ekki eins óðslega og margur annar í þenslunni. Sjóðurinn er meðalstór á íslenskan mælikvarða með um 3 þús. greiðandi sjóðfélaga og á yfir 23 milljarða kr. í eignir. Hins vegar hefur þessi einhliða ákvörðun ríkisvaldsins gríðarleg áhrif á kjör bænda þar sem 8% mótframlagið verður þá greitt af þeim og við það bætast 0,7% vegna tryggingagjalds. Þetta þýðir í raun að kjaraskerðing bænda á næsta ári er 8,7% af völdum einnar ákvörðunar sem birtist í fjárlagafrumvarpinu. Einhverjir gætu sagt að þetta væri eðlilegt framlag bænda til niðurskurðar, en þá gleymist að á vordögum 2009 gerðu bændur og ríkið með sér samning þar sem bændur tóku á sig verulegar skerðingar vegna búvörusamninga.

Á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis á vori 2009 er haft eftir þáverandi ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og núverandi hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Það er mat Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að með þessu samkomulagi sé stigið mikilvægt skref í átt til þjóðarsáttar um nauðsynlegar aðgerðir til að takast á við þá erfiðu tíma sem þjóðin gengur nú í gegnum.“

Jafnframt kemur fram í fréttatilkynningunni að með þessu sýni bændur að þeir geri sér glögga grein fyrir alvarlegri stöðu þjóðarbúsins og axli ábyrgð með því að færa umtalsverða fórn næstu tvö, þrjú árin.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Finnst honum ekki nóg að gert? Telur hann að hjá bændum séu fundin hin breiðu bök og að hægt sé að sækja meiri og meiri tekjur í ríkiskassann með því að skerða kjör þeirra? (Gripið fram í.) Er hæstv. fjármálaráðherra að rjúfa þjóðarsátt við bændur?

Í áðurnefndum samningi var ákvæði þar sem samningsaðilar voru sammála um að beita sér fyrir könnun á skuldastöðu bænda í samvinnu við viðskiptabanka til að leita lausna á að bæta stöðu greinanna í þeim fjármálaþrengingum sem þjóðin og atvinnugreinarnar búa við. Jafnframt voru samningsaðilar sammála um að hefja endurskoðun á landbúnaðarstefnunni í þeim tilgangi að treysta stöðu landbúnaðarins.

Lokaspurning mín til hæstv. ráðherra er því þessi:

Er þessari vinnu lokið og varð niðurstaðan sú að hægt væri að skerða kjör bænda um 8,7% til viðbótar þeim skerðingum sem þeir hafa tekið á sig, annars vegar með samningum við ríkisvaldið og hins vegar eins og aðrir þegnar þessa lands vegna verulegra hækkana á aðföngum, sköttum og fjármagnskostnaði?