139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

mótgreiðsluframlag ríkisins í Lífeyrissjóð bænda.

[14:51]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka bæði málshefjanda og ráðherra fyrir að skýra málið ágætlega út fyrir okkur. Það kom fram nokkuð glöggt í máli hæstv. fjármálaráðherra að samráð var haft við bændur um breytinguna, það er vissulega ekki gleðileg breyting eftir áratuga hefð, en þarna var einfaldlega forgangsraðað þannig að valið var að tryggja rekstrargrunn greinarinnar. Forgangsröðunin varð að eiga sér stað og ég held að það hafi verið skynsamleg forgangsröðun. Þess má geta sérstaklega og undirstrika að búvörusamningarnir sem sá sem hér stendur studdi mjög að gerðir væru á sínum tíma, eru verðtryggðir þannig að þeir standa ágjafirnar býsna vel af sér miðað við margt annað. Við sjáum hvað það kostar að hafa ekki samráð í viðkvæmum málum á erfiðum tímum eins og gerðist með heilbrigðisstofnanirnar þar sem fara þurfti í tveggja mánaða samráð eftir á. En nú, eftir samráð, hefur náðst góð niðurstaða þar eða þokkaleg og viðunandi miðað við hvað lagt var upp með. Hæstv. ráðherra hefur skýrt það ágætlega út núna í dag að haft var samráð við bændur um þessa breytingu. Ákvörðun ráðuneytisins er byggð á forgangsröðun greinarinnar sjálfrar eftir samráð við hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans og það skiptir öllu máli upp á samkomulagið. Það hefði að sönnu verið ámælisvert ef tekin hefði verið einhliða ákvörðun í ráðuneyti eða ríkisstjórnum að fara þá leið án samráðs við greinina sjálfa eftir 40 ára samfellda sögu þessa fyrirkomulags.

Það gleður mig því að heyra að hæstv. ráðherra hafði samráð um breytinguna og að rekstrargrundvöllur greinarinnar er tryggður á viðkvæmum tímum þegar að sönnu (Forseti hringir.) hefur verið glímt við hækkun á verði og aðföngum og fleiri slíkum hlutum.