139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

mótgreiðsluframlag ríkisins í Lífeyrissjóð bænda.

[14:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kemur hér og segir að bændur geti ekki verið ónæmir fyrir þeim niðurskurði sem orðið hefur í kjölfar efnahagshrunsins. Það er nú ekki aldeilis svo að ekki hafi verið skert kjör til bænda. Það hafa sennilega fáar stéttir ef nokkrar tekið á sig aðrar eins skerðingar og bændastéttin hefur þurft að gera frá hruni. Það má nefna að framlög til Framleiðnisjóðs hafa nánast alveg verið felld niður. Framlög í búnaðarlagasamning hafa verið skert verulega. Lengi má telja dæmi um hvernig komið hefur verið fram við þessa stétt sem er annars mjög veikburða og á erfitt uppdráttar en sér okkur samt fyrir mikilvægri framleiðslu sem þjóðin getur ekki verið án og hana þarf að styrkja miklu meira en gert hefur verið.

Enn er höggvið í sama knérunn. Hér eru skert kjör þessarar láglaunastéttar um tæp 9% — tæp 9 %, virðulegi forseti. Það er auðvitað ekki hægt að kalla samráð þegar hópi manna, þessari stétt, er stillt upp við vegg og henni settir afarkostir um að enn og aftur þurfi að skera niður. Það er ekkert annað en uppstilling, virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur það í hendi sér þegar hún hyggst beita krafti sínum með þeim hætti.

Bændur geta ekki jafnað skerðinguna í afurðaverði við þær aðstæður sem eru í samfélaginu í dag, það er alveg ljóst. Eðlilegast væri að skerðingin færi beint út í afurðaverðið og neytendur greiddu hana. Hvaða áhrif hefði það þá á verðbólgu, á afkomu heimilanna o.s.frv.? Það er hluti af miklu stærra dæmi sem verður að taka til greina og skoða þegar svona ákvarðanir eru teknar.

Ríkið er samningsaðili við aðrar stéttir í þessu landi í gegnum Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Þar eru lífeyrissjóðir sem njóta ríkisábyrgðar — ríkisábyrgðar. Þar hafa skuldbindingar ríkisins hækkað stórkostlega frá hruni. Hvað mundu þau samtök segja ef ríkisstjórnin hagaði sér með sama hætti og skerti þar greiðslur eða lækkuðu laun einhliða? Ríkisstjórnin treystir sér ekki í þann slag, virðulegi forseti.