139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[15:07]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga og fleiri lögum.

Nefndin ákvað að kalla málið inn til nefndar milli 2. og 3. umr. til að ræða möguleg áhrif hæstaréttardóms um ábyrgðir á frumvarpið. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa frá félags- og tryggingamálaráðuneyti og Áslaugu Árnadóttur lögfræðing, sem einnig kom fyrir hönd þess ráðuneytis, fulltrúa frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, fulltrúa frá umboðsmanni skuldara auk umboðsmanns skuldara sjálfs.

Nefndin ræddi frumvarpið og stöðu greiðsluaðlögunar í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 274/2010 þar sem Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Suðurlands um að kröfuréttur á hendur sjálfskuldarábyrgðarmönnum nyti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og að þau réttindi yrðu ekki skert án bóta með afturvirkri löggjöf. Staðfesti Hæstiréttur að 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, sbr. 12. gr. laganna, þar sem kveðið er á um með afturvirkum hætti að niðurfelling kröfu á hendur skuldara hafi sömu áhrif til niðurfellingar fyrir ábyrgðarmann, væri andstæð stjórnarskrá og yrði því ekki beitt um ábyrgð sjálfskuldarábyrgðarmanna á greiðslum samkvæmt skuldabréfi. Ábyrgðarmönnum bæri því að greiða umkrafða fjárhæð.

Nefndin bendir á að dómur Hæstaréttar hefur ekki bein áhrif á greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lögum nr. 101/2010 sem tóku gildi 1. ágúst 2010 og ekki á fyrirliggjandi frumvarp. Dómurinn hefur fyrst og fremst áhrif á nauðasamninga til greiðsluaðlögunar sem gerðir voru fyrir gildistöku þeirra laga og þar sem er í nauðasamningi kveðið á um niðurfellingu krafna sem tryggðar eru með sjálfskuldarábyrgð. Samkvæmt upplýsingum á vef dómstólaráðs höfðu 31. júlí 2010 546 slíkir nauðasamningar til greiðsluaðlögunar verið samþykktir en ekki liggur fyrir hversu hátt hlutfall þeirra verður fyrir áhrifum af dómi Hæstaréttar. Það skal tekið fram hér að fulltrúar frá umboðsmanni skuldara sögðu að það væri mjög algengt að um ábyrgðarmenn væri að ræða í þeim málum sem koma til kasta umboðsmanns skuldara vegna greiðsluaðlögunar þannig að það sé brýnt að finna viðunandi lausn á stöðu ábyrgðarmanna þegar kemur að greiðsluaðlögun.

Eftir gildistöku laga nr. 101/2010 er ávallt reynt að ná fram samningi um greiðsluaðlögun og ekki kemur til nauðasamnings nema samningaleiðin sé reynd til þrautar. Ekkert er því til fyrirstöðu að í slíkum samningi sé samið við kröfuhafa hvernig fara skuli með ábyrgðir og leggur nefndin ríka áherslu á að umsjónarmenn um greiðsluaðlögun gæti að því að semja um slíkt við greiðsluaðlögunarumleitanir.

Nefndin telur mikilvægt að meðferð kröfuhafa á sjálfskuldarábyrgðum og ábyrgðarmönnum sé samræmd og verði ekki til þess að fjölga þeim sem lenda í greiðsluerfiðleikum. Því beinir nefndin því til ráðuneyta sem fara með framkvæmd laga er varða skuldavanda heimilanna að leita eftir samkomulagi við helstu aðila, svo sem banka, sparisjóði, lífeyrissjóði og Íbúðalánasjóð, þar sem samið verði um samræmda meðferð sjálfskuldarábyrgða sem jafnframt tryggi að fleiri einstaklingar lendi ekki í greiðsluerfiðleikum. Nauðsynlegt er að tryggja virkni greiðsluaðlögunar og annarra skuldavandaúrræða sem og að kröfuhafar grípi ekki til aðgerða sem fjölgi þeim sem þurfa á slíkum úrræðum að halda.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt. Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ásmundur Einar Daðason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálit þetta rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir framsögumaður, Ólafur Þór Gunnarsson, Pétur H. Blöndal, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir