139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[15:21]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú erum við komin í þá stöðu að ég veiti hv. þingmanni ekki andsvar heldur meðsvar vegna þess að ég er hjartanlega sammála henni um að auðvitað er mjög mikilvægt að eitthvert heildarsamkomulag náist milli þeirra sem að þessum málum koma og hagsmuni eiga, hvort sem það eru fjármálastofnanir eða skuldarar. Ég lýsi mig hjartanlega sammála þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður lýsti og fram komu hjá umboðsmanni skuldara um mikilvægi þess að slíkt samkomulag skyldi nást.

Ég fagna því sömuleiðis að nefndin hafi séð ástæðu til að senda frá sér framhaldsnefndarálit til að árétta sjónarmið sín varðandi lausn þessara mála og hyggist koma þeim á framfæri við alla hlutaðeigandi.

Ég fæ ekki betur séð en að við séum meira og minna sammála um meginatriðin í þessu máli. Það er auðvitað þakkarvert og gleðilegt.