139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[15:31]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið nú þegar við ræðum við 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun og þakka formanni nefndarinnar og nefndinni allri. Kannski var meginástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs, líkt og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði við 1. umr. eða 2. umr. málsins, sú að vekja sérstaka athygli á því hversu vel nefndin hefur unnið saman, hversu samhent hún hefur verið í málinu og komist vel frá því. Mættu í rauninni flestar eða alla vega margar nefndir þingsins taka það starf sér til fyrirmyndar.

Greiðsluaðlögun er afar mikilvægt úrræði. Það er mikilvægt að við klárum þetta mál í dag eins og komið hefur fram í máli margra þingmanna. Við höfum heyrt frá umboðsmanni skuldara að mikilvægt sé að þeir einstaklingar sem þurfa á aðstoð að halda komi þangað inn. Þess vegna var mikilvægt, eins og komið hefur fram í máli þingmanna, að ræða þau atriði sem komu upp í kjölfar dóms Hæstaréttar um ábyrgðarmenn. Um það mál hafa aðrir þingmenn rætt og ég get tekið undir margt af þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið. Það sem þetta segir okkur hins vegar er hversu gamalt og í rauninni gallað og úrelt kerfið var, að telja til ábyrgðarmenn héðan og þaðan og alls staðar að úr fjölskyldum manna og oft og tíðum undirselja heilu fjölskyldurnar og jafnvel ættbálkana fyrir það eitt að einhver fjölskyldumeðlimur ætlaði að kaupa sér þak yfir höfuðið. Það er náttúrlega ófært fyrirkomulag og við þurfum að komast út úr því.

Nefndin tók á þessu máli á fundi sínum í dag, eins og fram kom. Ég tel að sú niðurstaða sem nefndin kemst að sé afar skynsamleg. Það þarf að ná sáttum og samkomulagi um þessi mál. Ég tel raunar að þrátt fyrir að um sé að ræða einhvers konar heildarsamkomulag, eins og hefur m.a. komið fram í máli hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, verði í einhverjum tilvikum að semja sérstaklega um einstök mál og taka þá tillit til aðstæðna eins og fleiri þingmenn en hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hafa komið inn á.

Ég tel að umboðsmaður skuldara sé að vinna gott verk. Embættið þarf stuðning í þeirri lagasetningu sem við erum að ganga frá. Ég tel ekki að þetta sé smiðshöggið á þá lagasetningu, það þarf að fylgjast með því hvernig úrræðið virkar og tryggja að lagaumgjörðin sem er utan um þennan mikilvæga málaflokk sé nægilega traust og góð til þess að við getum notað embættið og úrræðin til að aðstoða fjölskyldur í vanda.