139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

kjarasamningar opinberra starfsmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

301. mál
[15:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Því er ekkert að leyna að hvorugur aðili málsins var fyllilega sáttur við þessa útfærslu. Sveitarfélögin vildu ganga lengra í þá átt að starfsmenn ættu að færast yfir. SFR taldi að sólarlagsákvæðið ætti að vera þannig úr garði gert að mönnum stæði áfram opið val á að velja sér stéttarfélag. Þannig hefur það verið gert í sumum tilvikum á fyrri tíð, var t.d. 1990 þannig, ef ég man rétt. Hér er því farið í raun og veru bil beggja. Eins og ég sagði í framsögu minni held ég að þetta sé eiginlega sú eina niðurstaða sem gat orðið og úr því að ekki tókst einhvern veginn samkomulag á þessu milli aðila varð einhvern veginn að lenda því máli. Hér er farið nokkurn veginn að þeim fordæmum sem er að finna frá liðinni tíð. Hvorugur aðilinn er fyllilega sáttur við það að sjálfsögðu, en við reyndum að gera umbúnaðinn um þetta þannig að þetta væri sem ásættanlegast og reyna að tryggja eins og hægt er, m.a. með viljayfirlýsingum aðila, að þetta mundi ganga hnökralaust fyrir sig.

Það er allt of ódýrt hjá hv. þingmanni að tala bara um stéttarfélagsgjöld í þessu sambandi. Við megum ekki gleyma því að hér eiga undir 1.000–1.200 starfsmenn í ákaflega mikilvægri þjónustu og það þarf að leysa þessi mál þannig að sátt sé um það líka við mannauðinn sem þarna á í hlut. Að sjálfsögðu var það sjónarmið sem menn höfðu í huga að reyna að finna lausn sem starfsmenn og stéttarfélög þeirra væru sæmilega sátt við en líka aðgengilegt fyrir sveitarfélögin, þannig að það væri sæmilegt andrúmsloft í samskiptum þegar að því kæmi að þessir aðilar þyrftu svo að fara að vinna saman, og þar á meðal að semja um kaup og kjör. Það verður að hafa allt þetta samhengi hlutanna í huga þegar það er rætt hvernig átti að fara með þennan viðkvæma og vandasama þátt málsins. Ég tel að það hafi að lokum tekist, vonandi bærilega, að lenda því þannig að allir eigi að geta unað við það.