139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

kjarasamningar opinberra starfsmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

301. mál
[15:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi framtíðina og fordæmið hér má auðvitað vísa til sögunnar, að niðurstaðan hefur oftast orðið sú að fara einhverja svona leið. Það sýnir sagan okkur. Ég er hins vegar á því og sagði það hér í framsögu að æskilegt væri að setjast yfir þetta og skoða lagaumhverfið, hvort hægt sé að hafa það skýrar og betur um það búið hvernig að þessum málum er staðið þegar verkefni færast milli stjórnsýslustiganna í hvora áttina svo sem það er. Það gæti tengst hugmyndum sem menn hafa heilmikið rætt, að breyta svolítið grundvelli kjarasamningagerðar þar sem fleiri, fleiri tugir viðsemjenda eru hver að semja fyrir sig innan ramma annars vegar opinbera vinnumarkaðarins og út af fyrir sig þess vegna á hinum almenna, án þess að ég ætli að blanda mér í það, og færa þetta kannski í áttina að því sem sums staðar er í nágrannalöndunum þar sem eru gerðir rammasamningar sem eru almennir og taka til allra og síðan fylla menn inn í þá með sérsamningum á hverju sviði. Þá væri á margan hátt einfaldara að leysa þessi mál ef það skipti í sjálfu sér ekki máli hvaða stéttarfélagi menn tilheyrðu þegar þeir kæmu að rammakjarasamningagerð af því tagi.

Varðandi starfsmennina verða þeir að sjálfsögðu starfsmenn sveitarfélaganna frá og með yfirfærslunni en þeir fá að halda núverandi stéttarfélagaaðild sinni, þeir sem það kjósa. Þeir þurfa að velja og það þarf að liggja fyrir strax í upphafi næsta árs eða fljótlega á fyrstu vikum næsta árs hvert valið hefur verið. Það bárust eindregnar óskir frá mjög miklum fjölda starfsmanna sem þarna áttu í hlut að þeir fengju að halda núverandi stéttarfélagaaðild sinni og ég hygg að félagsmálaráðherra og jafnvel við báðir, ég og félagsmálaráðherra, höfum fengið áskoranir og undirskriftir þar um. Það virðist því nokkuð ljóst að hugur starfsmanna, mjög margra, er til þess að fá að tilheyra áfram sínu núverandi stéttarfélagi og þá einhvers konar sveitarstjórnarstarfsmannadeild innan þess.