139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[16:10]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er gerð athugasemd um að þetta mál sé seint fram komið. Það má vel taka undir að æskilegra hefði verið að það hefði komið inn fyrr. Ég vek þó athygli á því að hér er um mjög mikla vinnu að ræða, eins og þingmenn sjá, mikla handavinnu við að fara yfir lögin í þessu sambandi, við erum að tala hér um 42 blaðsíður. Ég vona þó að það komi ekki að sök. Þeir starfsmenn sem að þessu hafa unnið í ráðuneytunum munu að sjálfsögðu vinna vel með nefndinni sem fær frumvarpið til umfjöllunar þannig að greiðlega gangi að afgreiða málið sem er nauðsynlegt að gera áður en þingið fer í jólaleyfi.

Ég vek einungis athygli á því að mjög mikil vinna liggur að baki þessu en tek undir með hv. þingmanni, það hefði verið æskilegra að það hefði getað legið fyrir fyrr.