139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[16:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi inna hæstv. forsætisráðherra eftir einu í sambandi við þetta mál sem vissulega er auðvitað fyrst og fremst tæknilegt og afleiðing af þeirri löggjöf sem var samþykkt hér í september um stofnun innanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis. Liggur fyrir hvernig ríkisstjórnin hyggst stíga næstu skref í þessum efnum? Það voru ákveðnar frekari breytingar, m.a. um stofnun sérstaks auðlindaráðuneytis og aðrar tilfæringar í Stjórnarráðinu sem voru í upprunalegu frumvarpi sem var afgreitt í september. Ef ég man rétt var þá boðað að áfram yrði unnið að undirbúningi þeirra breytinga með það að markmiði að ná víðtækari sátt um niðurstöðu í þeim málum en þá lá fyrir. Mér finnst rétt að nýta þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra hvort von sé á einhverjum frumvörpum um þetta.

Ég tek fram að ég er ekki að kalla sérstaklega eftir því í ljósi þess að ég hafi mikinn áhuga á þeim breytingum sem þar voru boðaðar, ekki eins og þær voru útfærðar, en hins vegar finnst mér rétt að hæstv. ráðherra upplýsi þingið um áform ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.