139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[16:42]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að upplýsa okkur um að leitarforritin hafi ekki aðeins verið ræst í tölvu forsætisráðuneytisins heldur líka í þinginu þannig að það er þá alla vega búið að gera ráðstafanir til að leita af sér allan grun. Leitarforritið Google hefur greinilega komið í góðar þarfir og fundið a.m.k. tilefni í 260 greinum til að skrifa heiti ráðuneytanna í lagafrumvarpið.

Hæstv. ráðherra sagði að það væru ekki mikil tíðindi. Ég tel að það séu nú mikil tíðindi. Það er hins vegar rétt að í meirihlutaáliti allsherjarnefndar voru menn svo sem ekkert að tvínóna við hlutina, bæði fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar töluðu með sama hætti og hæstv. forsætisráðherra, að það væri nánast afgreitt mál af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að sameina fleiri ráðuneyti og breyta síðan verklaginu, breyta viðfangsefnum og verkefnum ráðuneytanna, færa þau á milli ráðuneyta o.s.frv.

Tíðindin í því eru þau að í millitíðinni gerðist það að einn ráðherranna sem um er að ræða lýsti þessum hugmyndum sem algjöru rugli. Mér finnst varla hægt að taka dýpra í árinni en hæstv. ráðherra gerði þegar fjallað er um þessi mál. Hann kallar þetta algjört rugl. Þess vegna finnast mér það dálítil tíðindi þegar annar ráðherra, hæstv. forsætisráðherra, segir okkur frá því sem nánast gefnum hlut að niðurstaðan verði sú að fara í ruglið, framkvæma ruglið, og sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið iðnaðarráðuneytinu, breyta síðan verkefnum ráðuneytanna og taka þau undan sameinuðu ráðuneyti og setja þau inn í nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Það eru auðvitað heilmikil tíðindi.

Ég spurði síðan hæstv. ráðherra: Hvar stendur samráðið við landbúnaðinn, sjávarútveginn, iðnaðinn og alla þá sem málið varðar, eins og lofað var? Þeir aðilar hafa allir lýst mikilli andstöðu við þessar hugmyndir (Forseti hringir.) um breytingar.

Ég ítreka spurninguna: Hvar stendur þetta samráð? Hvaða ávöxt hefur það borið? Hefur það leitt til þess að menn eru eitthvað nær niðurstöðu og samkomulagi í þessum efnum?