139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:12]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er allt rétt og satt sem þingmaðurinn tekur hér fram í andsvari sínu. Hins vegar er það svo í fyrsta lagi að vatn er heilbrigðismál og vatnsvernd er það líka. Við gerð frumvarpsins og mat á tímanum sem tekur að innleiða þetta var tekið mið af sérstökum aðstæðum Íslands, þannig að við förum hægar í sakirnar en ella hefði verið gert við aðrar aðstæður. Að teknu tilliti til þeirra erfiðu aðstæðna og þess mikla kostnaðar sem af þessi hlýst hefði ég helst viljað sjá að við hefðum náð því að atvinnulífið og þeir aðilar sem mest nota vatnið kæmu með kostnaðarhlutdeild sína strax inn í þetta mál en eðli málsins samkvæmt verður þetta að falla fyrst um sinn á ríkissjóð, sem er auðvitað allur almenningur í landinu, en vonandi sem allra fyrst á þá sem auðlindina nota.