139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka framsögu hæstv. ráðherra. Hér erum við að tala um mál sem við ættum auðvitað ekki að þurfa að fjalla mikið um, ekki síst á þessum tímum. Hér á landi höfum við verið með alls kyns vatnsvernd, bæði í kringum vatnstökur og eins fráveitur, og hefur gengið býsna vel. Ísland er með lægstu matarsýkingatíðni í heiminum. Hér tökum við upp Evrópusambandstilskipun, þar liggja lönd saman en við erum, eins og allir vita, eyja langt úti í hafi.

Það er tvennt sem mig langar að spyrja ráðherrann um. Í fyrsta lagi er í 8. gr. fjallað um aðkomu sveitarfélaga, ekki síst heilbrigðiseftirlitsins sem vinnur verkið við flokkunina. Er búið að áætla þann kostnað? Það kemur hvergi fram.

Í öðru lagi varðandi umsögn fjármálaráðuneytisins. Oft hefur verið kallað eftir því af Sambandi íslenskra sveitarfélaga að gerð yrði sambærileg úttekt varðandi kostnað sveitarfélaganna (Forseti hringir.) og málið sent til sambandsins. Ég hjó sérstaklega eftir því að hæstv. ráðherra talaði um að samráð væri lykilhugtak (Forseti hringir.) í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Ég hefði þá talið eðlilegt að það lægi fyrir í þessu verkefni.