139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir því sem ég hef skilið er flokkun vatns verkefni sem verður innt af hendi af heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna. Sveitarfélögin, rétt eins og ríkisvaldið, standa frammi fyrir mjög erfiðum tímum. Skera þarf niður og m.a. í mannafla og fjármunum til heilbrigðiseftirlits. Það þýðir auðvitað að þar verða menn að forgangsraða líka. Menn fara ekki í kostnaðarsöm, ný verkefni sem krefjast nýrra starfsmanna og aukins utanumhalds þegar þeir eiga í fullu fangi með að stýra lágmarkseftirliti og þjónustu með matvælafyrirtækjum í landinu, sem er grundvallaratriði. Mér finnst því að þarna sé ekki nægilega skýrt kveðið að orði hjá hæstv. ráðherra. Það hlýtur að vera að einhver kostnaður falli til á næstu tveimur árum — nema við ætlum ekki að fara í verkefnið á næstu tveimur árum. Þá ættum við kannski bara að hinkra róleg.